Fótbolti

PSG stað­festir brott­rekstur Tuchel

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
PSG staðfesti loks brottrekstur Thomas Tuchel í dag.
PSG staðfesti loks brottrekstur Thomas Tuchel í dag. EPA-EFE/Guillaume Horcajuelo

Franska knattspyrnuliðið Paris Saint-Germain hefur loks staðfest brottrekstur sinn Thomas Tuchel, þýska þjálfara liðsins, sem var rekinn á dögunum eftir tvö og hálft ár við stjórnvölin.

Tuchel var rekinn sem þjálfari Paris Saint-Germain eftir sigur liðsins á Strasbourg á miðvikudaginn var. Brottrekstur hans var hins vegar ekki staðfestur fyrr en í dag. Staðfesti PSG þetta á vefsíðu sinni og samfélagsmiðlum.

„Ég vill þakka Thomas Tuchel og starfsliði hans fyrir allt sem það gerði hjá félaginu. Thomas lagði mikla orku og ástríðu í vinnu sína hjá félaginu og auðvitað verður hans minnst fyrir þær góðu stundir sem við áttum saman. Ég óska honum alls hins besta í framtíðinni,“ segir í yfirlýsingu forseta félagsins, Nasser Al-Khelaifi.

Aðeins fjórir mánuðir eru síðan Tuchel stýrði liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu sem tapaðist 1-0 gegn þýska stórveldinu Bayern München. PSG fór illa af stað í frönsku deildinni eftir stutt sumarfrí og er sem stendur stigi á eftir bæði Lyon og Lille. Svo virðist sem það hafi kostað hann starfið.

Alls vann hinn 47 ára gamli Tuchel sex titla á tíma sínum hjá PSG en hann tók við sumarið 2018. Þar áður stýrði hann Borussia Dortmund og Mainz í Þýskalandi.

Mauricio Pochettino ku vera næsti þjálfari PSG en Argentínumaðurinn lék með félaginu á sínum tíma og er í miklum metum hjá forráðamönnum Parísarliðsins.


Tengdar fréttir

Tuchel rekinn frá PSG - Pochettino að taka við?

Thomas Tuchel hefur verið rekinn úr stjórastól franska stórveldisins PSG eftir dapurt gengi í frönsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Liðið er þó í þriðja sæti, stigi á eftir toppliði Lyon, en það þykir allt annað en ásættanlegt í höfuðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×