Innlent

Flug­eldum fyrir þrjár milljónir stolið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flugeldasalan er stærsta fjáröflun björgunarsveitarinnar og Kiwanisklúbbsins á Þorlákshöfn.
Flugeldasalan er stærsta fjáröflun björgunarsveitarinnar og Kiwanisklúbbsins á Þorlákshöfn. vísir/vilhelm

Brotist var inn í flugeldagám fyrir utan Kiwanishúsið í Þorlákshöfn um hátíðirnar og flugeldum að andvirði þriggja milljóna króna var stolið. Frá þessu greinir björgunarsveitin Mannbjörg á Facebook.

Þar segir að sveitin hafi aðstoðað Kiwanisklúbbinn Ölver í bænum með flugeldasölu í áratugi. Flugeldasalan sé stærsta fjáröflun beggja félaga og því um mikið tjón að ræða fyrir báða aðila.

„Tjónið er ekki síður tilfinningalegt fyrir meðlimi Ölvers og Mannbjargar sem hafa unnið hörðum höndum allan desembermánuð í sjálfboðavinnu að undirbúningi flugeldasölunnar,“ segir í Facebook-færslu björgunarsveitarinnar.

Þann 21. desember síðastliðinn var síðast gerð grein fyrir flugeldunum, þegar síðasti hópur yfirgaf svæðið eftir að hafa læst flugeldana inni í læstum gámi. Þegar að var komið í dag voru flugeldarnir á bak og burt, og því ljóst að þeim hefur verið stolið einhvern tímann á milli 21. desember og dagsins í dag.

Þau sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar um málið eru í færslu sveitarinnar beðin um að hafa samband við lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×