Innlent

Píratar vilja minnihlutastjórn VG og Framsóknar og kosningar í vor

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fer fram á að fjármálaráðherra segi af sér. 
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fer fram á að fjármálaráðherra segi af sér.  Vísir/Vilhelm

Píratar segjast tilbúnir til að styðja minnihluta stjórn Vinstri grænna og Framsóknarflokks gegn því að gengið verði til kosninga í vor. Þeir segjast með þessu vera að rétta fram sáttarhönd í kjölfarið á meintum sóttvarnarbrotum fjármálaráðherra.

Fjármálaráðherra var á meðal gesta í Ásmundarsal á Þorláksmessu þegar lögregla leysti upp samkvæmið vegna brota á sóttvörnum. Ráðherrann baðst afsökunar á athæfi sínu í gær og segist ekki hafa áttað sig á fjölda fólks í salnum. Píratar segja frásögn hans ótrúverðuga og eru ósáttir við viðbrögðin.

„Mér finnst viðbrögðin hafa einkennst af miklum hroka. Hann neitar að víkja vegna þess að hann telur sig vera að sinna svo mikilvægum verkefnum,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.

„Það er bara á Íslandi sem stjórnmálamennirnir eru stærri en verkefnin sem þeir sinna og geta ekki vikið fyrir því. Þetta er eitthvað séríslenskt fyrirbrigði sem á ekki að vera til eftirbreytni.“

Hún segir viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra heldur ekki til fyrirmyndar.

Viðbrögðin einkennist af meðvirkni

„Þegar kemur að Katrínu og Sigurði Inga að þá finnst mér mjög miður að sjá þeirra viðbrögð en mér sýnist þau einkennast af mikilli meðvirkni með samstarfsfélögum sem hafa endurtekið sýnt af sér óafsakanlega hegðun og ég held að þau séu komin á þennan vegg að þau sjá ekki leið út úr því, en við sjáum að það eru fleiri leiðir færar heldur en að viðhalda þessu ástandi.“

Leiðirnar séu minnihlutastjórn. „Píratar eru til dæmis tilbúnir að styðja minnihlutastjórn Vinstri grænna og Framsóknarflokks ef við fáum kosningar í vor og breytingarákvæði í stjórnarskrárinnar í gegn,“ segir Þórhildur Sunna.

„Þetta er útrétt sáttarhönd frá okkur til VG og Framsóknarflokks. Samfélagið gengur áfram án Sjálfstæðisflokks. Samfélagið myndi meira að segja ganga áfram ef Bjarni Benediktsson myndi bara víkja sæti en miðað við hans viðbrögð þá reikna ég ekki með því.“

Draga vantrauststillöguna í land

Aðspurð út í hugsanlegt vantraust á hendur Bjarna, líkt og flokkurinn hafði lýst yfir, segir hún að það hafi aðeins verið ein tillaga af mörgum.

„Miðað við viðbrögð Katrínar og Sigurðar Inga þá er ekki líklegt að sú tillaga beri nokkurn árangur annan en kannski að sýna þjóðinni hversu samtrygging stjórnmálamanna er sterk. Ég veit ekki hvort það myndi gagnast okkur á þessari stundu en við þurfum samstöðu með þjóðinni, ekki samstöðu með Bjarna Benediktssyni gegn hagsmunum þjóðarinnar.“

Flokkurinn geri kröfu um afsögn. „Mér finnst þetta afsagnarsök og mér finnst mjög eðlilegt í lýðræðisríki að Bjarni Benediktsson víki embætti eftir jafn stórfenglegt brot og hann varð uppvís af.“

Bjarni Benediktsson útskýrði sína hlið í gær og sagðist ekki hafa verið meðvitaður um hversu margir hafi verið í salnum. Hann hafi verið þar í um tíu mínútur þegar lögreglu bar að garði. Eiginkona hans hafi á svipuðum tíma nefnt að fjölgað hefði nokkuð í hópnum á þessum tíma og að þau þyrftu að fara. Bjarni baðst afsökunar og sagði hegðun sína ekki til eftirbreytni.


Tengdar fréttir

Lögregla skoðar misbrest í upplýsingagjöf

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir það hafa verið mistök að tilgreina ráðherra í tilkynningu til fjölmiðla á aðfangadag um samkvæmi í Ásmundarsal sem lögregla stöðvaði. 

Málið óheppilegt en mikilvægt að horfa á stóru myndina

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist vonsvikinn yfir því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi virt sóttvarnarreglur að vettugi. Hins vegar sé bólusetning handan við hornið og því sé mikilvægt að halda í samstöðuna svo hægt sé að komast í gegnum heimsfaraldurinn.

Píratar íhuga vantrauststillögu á hendur Bjarna

Þingflokkur Pírata hefur til skoðunar að leggja fram vantrauststillögu á hendur Bjarna Benedikssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta kom fram í hádegisfréttum Rúv í dag þar sem haft var eftir Jóni Þór Ólafssyni, þingmanni Pírata og formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að vera Bjarna í of fjölmennu samkvæmi á Þorlásmessu sé til þess fallið að rýra traust í garð stjórnmálamanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×