Innlent

Lögregla skoðar misbrest í upplýsingagjöf

Birgir Olgeirsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir það hafa verið mistök að tilgreina ráðherra í tilkynningu til fjölmiðla á aðfangadag um samkvæmi í Ásmundarsal sem lögregla stöðvaði. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrirspurna fjölmiðla. 

Um er að ræða svokallað dagbók lögreglu sem fjölmiðlar fá senda á hverjum morgni. Þar er farið yfir helstu verkefni lögreglu síðastliðinn sólarhring. Að morgni aðfangadags var slíkur póstur sendur á fjölmiðla þar sem fjallað var um umrætt samkvæmi í Ásmundarsal og vitnað orðrétt upp úr skýrslu lögreglu sem fór á vettvang. 

Í henni var tekið fram að „háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið í umræddu samkvæmi. Fjölmiðlar sendu fyrirspurnir á ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem neituðu einn af öðrum fyrir að hafa verið í samkvæminu. Vísir hafði heimildir fyrir því að Bjarni hefði verið umræddur ráðherra. 

Skömmu síðar greindi hann sjálfur frá því á Facebook-síðu sinni þar sem baðst afsökunar á veru sinni í samkvæminu. 

Í tilkynningu sem fjölmiðlum barst frá lögreglu í dag er tekið fram að vinnureglan sé að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir eru sendir hverju sinni. Það hafi farist fyrir á aðfangadag og verður málið skoðað að sögn lögreglu. 

Tilkynninguna í heild má sjá hér fyrir neðan: 

Vegna fyrirspurna fjölmiðla um tölvupóst sem þeim barst frá embættinu snemma á aðfangadag skal þess getið að vinnureglan er sú að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir úr henni eru sendar hverju sinni. Í samantektinni, sem var send fjölmiðlum á aðfangadag, fórst það fyrir. Ef misbrestur verður á framansögðu er það ávallt skoðað til hlítar.


Tengdar fréttir

Þóra segist ekki bera ábyrgð á fölskum TikTok-aðgangi

„Jæja, nú les ég á hinum ýmsu miðlum að ég sé komin með reikning á Tik Tok. Ég geri ráð fyrir að þeir sem mig þekkja viti að það er ekki rétt,“ skrifar Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna Benedikssonar fjármála- og efnahagsráðherra í færslu á Facebook í dag.

Málið óheppilegt en mikilvægt að horfa á stóru myndina

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segist vonsvikinn yfir því að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi virt sóttvarnarreglur að vettugi. Hins vegar sé bólusetning handan við hornið og því sé mikilvægt að halda í samstöðuna svo hægt sé að komast í gegnum heimsfaraldurinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×