Erlent

Fráskilinn kærði pabba og mömmu fyrir að henda kláminu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómarinn fyrirskipaði báðum málsaðilum að skila inn verðmati á klámsafninu.
Dómarinn fyrirskipaði báðum málsaðilum að skila inn verðmati á klámsafninu. Unsplash/Gabriel Petry

Bandarískur maður hefur unnið mál á hendur foreldrum sínum, sem gerðust sek um að henda klámsafni sonarins. David Werking sagði foreldra sína ekki hafa haft neinn rétt á því að farga kláminu og dómarinn Paul Maloney var honum sammála.

Niðurstaðan gerir Werking kleift að sækja bætur á hendur foreldrum sínum en hann metur safnið á 3,7 milljónir króna.

Málsatvik eru þau að Werking flutti inn til foreldra sinna í Grand Haven í kjölfar skilnaðar og bjó hjá þeim í tíu mánuði. Á sambúðartímanum tóku pabbi og mamma sig til og hentu kössum af klámmyndum og -tímaritum en fyrir dómi sögðust þau í fullum rétti sem leigusalar sonar síns.

Dómarinn sagði þau hins vegar ekki hafa vísað í nokkur lög né dómafordæmi til að styðja þá fullyrðingu sína að leigusölum væri heimilt að farga eignum sem þeim mislíkaði.

„Það leikur enginn vafi á því að umrædd eign var eign David,“ sagði Maloney. 

„Sakborningarnir viðurkenndu ítrekað að hafa fargað eigninni.“

Dómarinn fyrirskipaði báðum málsaðilum að skila inn verðmati á klámsafninu.

Það fylgir ekki sögunni hvort safnið átti þátt í skilnaði Werking.

Guardian sagði frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.