Erlent

Útgöngubann yfir hátíðirnar á Ítalíu

Sylvía Hall skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalía.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalía. Getty/Augusto Casasoli

Öll svæði Ítalíu hafa nú verið skilgreind sem hættusvæði og útgöngubann verður í gildi yfir hátíðirnar. Ítalir mega aðeins ferðast til og frá vinnu og til þess að leita sér heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Bannið verður í gildi á öllu landinu yfir helstu hátíðardagana; 24. til 27. desember, 31. desember til 3. janúar og 5. til 6. janúar. Dagana á milli verða ekki jafn strangar reglur í gildi en þetta er gert með það að markmiði að minnka smithættu þá daga sem flestir eiga það til að koma saman.

Öllum „ónauðsynlegum“ verslunum er gert að loka og því aðeins apótek og matvöruverslanir sem munu taka á móti gestum næstu vikur fyrir innkaup á helstu nauðsynjavörum. Veitingastöðum og öldurhúsum er gert að loka og fólki ráðið frá því að fara í heimsóknir, en aðeins tveir yfir fjórtán ára aldri mega koma í heimsókn á hvert heimili.

Hvergi hafa fleiri látið lífið af völdum kórónuveirunnar í Evrópu en á Ítalíu, en landið fór einna verst út úr faraldrinum í vor.

Forsætisráðherrann Giuseppe Conte sagði ákvörðunina ekki vera auðvelda. Yfirvöld hafi þó ákveðið að hlusta á sérfræðingana, sem óttuðust að smitum gæti farið að fjölga yfir jólin.

Conte ávarpaði blaðamannafund þar sem hann kynnti næstu skref vegna kórónuveirunnar. Þar fagnaði hann því að bólusetningar gætu hafist í lok mánaðar og sagði það marka „endalok martraðarinnar“ sem hefði átt sér stað undanfarna mánuði. 


Tengdar fréttir

Flýta mati á bóluefni Moderna um viku

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) mun flýta mati á bóluefni frá Moderna . Fundurinn, sem áður átti að halda 12. janúar, fer fram 6. janúar í staðinn. Reynt verður að ljúka mati á bóluefninu á fundinum og þegar það liggur fyrir mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins reyna að gefa út markaðsleyfi á fáeinum dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×