Enski boltinn

Ræddu hörundsára stuðningsmenn Liverpool og „glímu“ þeirra við Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp heilsar Jose Mourinho fyrir leikinn í gær en til hliðar er stuðningsmaður Liverpool.
Jürgen Klopp heilsar Jose Mourinho fyrir leikinn í gær en til hliðar er stuðningsmaður Liverpool. AP/samsett/Peter Powell

Það er nánast hægt að ganga að því vísu að stuðningsmenn Liverpool ganga næstum því af göflunum í aðdraganda leikja liðsins á móti liðum knattspyrnustjórans Jose Mourinho.

Liverpool er aftur komið í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 sigur á Tottenham í toppslagnum í gær. Strákarnir í Sportinu í dag töluðu um Liverpool og hegðun Jose Mourinho fyrir leikinn í gær.

Kjartan Atli Kjartansson, Henry Birgir Gunnarsson og Ríkharð Óskar Guðnason eru reglulega með hlaðvarpsþáttinn Sportið í dag á Vísi og ræða þar allt sem kemur að íþróttum.

Fyrir leik Liverpool og Tottenham í gær þá ræddu þeir aðeins hörundsára stuðningsmenn Liverpool og knattspyrnustjórann Jose Mourinho.

„Ég held að það sé enginn þjálfari í heiminum sem nær að fara undir húðina á stuðningsmönnum andstæðinga sinna heldur en Jose Mourinho gerir við stuðningsmenn Liverpool,“ sagði Rikki G.

„Hann nær að taka út einhvern djöful í hverjum einasta stuðningsmanni. Þetta er ótrúlegt hvernig hann nær þessu,“ bætti Rikki G en það má sjá allan þáttinn í gær hér fyrir neðan.

„Maður hefur séð fylgismenn í samfélaginu vera að fara á taugum á Twitter. Hann er að gera þetta við ykkur í tíunda sinn og þið ætlið ekki að fatta trollið. Hann er að pakka ykkur saman,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson og beindi orðum sínum til Liverpool stuðningsmanna.

„Það skiptir ekki máli með hvaða liði hann er. Hann nær þessu alltaf. Það skiptir ekki máli hvar hann er í deildinni eða hvort að hann sé einhver samkeppni fyrir Liverpool. Honum tekst alltaf að gera stuðningsmennina geðveika,“ sagði Rikki G.

Jose Mourinho fór mikinn í aðdraganda leiksins í gær og ekki síst með því að gera lítið úr meiðslavandræðum Liverpool liðsins.

„Ég hugsa að Jürgen Klopp sé ekkert að láta þetta á sig fá og hann er alveg pollrólegur yfir þessum ummælum. Það var bara allt vitlaust hjá stuðningsmönnum Liverpool. Ég fór á Twitter í gær og hver einn og einasti fór að grafa upp eitthvað gamalt um Mourinho,“ sagði Rikki G.

„Ég held að Mourinho sé fyrstur að viðurkenna það að hann sé hræsnari. Hann segir bara það sem þarf að segja á hverjum tíma,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson.

Henry Birgir spáði leiknum 1-0 fyrir Tottenham, Rikki G. bjóst við jafntefli en Kjartan Atli var sá eini sem hafði rétt fyrir sér með því að spá Liverpool sigri.

Það má hlusta á allan þáttinn hér fyrir ofan eða allar þættina með því að smella hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×