Enski boltinn

Stuðningsmenn Liverpool fengu fleiri góðar fréttir í gær

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Dijk í 7-2 tapinu gegn Aston Villa fyrr á leiktíðinni.
Van Dijk í 7-2 tapinu gegn Aston Villa fyrr á leiktíðinni. Peter Powell/Getty

Ensku meistararnir í Liverpool eru sagðir vilja bjóða varnarmanninum öfluga, Virgil van Dijk, nýjan samning til fimm ára. CBS Sports hefur þetta eftir heimildum sínum.

Stuðningsmenn Liverpool fengu ekki bara góðar fréttir er liðið vann 2-1 sigur á Tottenham heldur eru allar líkur á því að varnarmaðurinn knái skrifi undir lengri samning við félagið.

Hollendingurinn stóri og stæðilegi er nú á meiðslalistanum eftir að hann meiddist í grannaslagnum gegn Everton, 17. október síðastliðinn, eftir samstuð við Jordan Pickford, markvörð Everton.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, vill eðlilega binda Hollendinginn lengur hjá félaginu. Núverandi samningur hans rennur út 2023 en fréttaveitan CBS Sports segir frá því að þeir vilji lengja þann samning enn frekar.

Talið er að Liverpool og umbjóðendur Van Dijk ræði nú saman um nýjan og enn betri samning en Hollendingurinn er talinn vilja vera áfram hjá félaginu þar sem hann hefur gert það gott.

Hann var keyptur fyrir 75 milljónir punda í janúar árið 2018 og hefur farið á kostum síðan þá. Hann spilaði meðal annars lykilþátt í því að liðið vann ensku deildina á síðustu ári og Meistaradeildina árið á undan. Hann var svo valinn leikmaður ársins árið 2019 og var í 2. sæti í Ballon d’Or sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×