Fótbolti

Fyrirliði Napoli mætti með nýtt risa Maradona húðflúr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lorenzo Insigne sést hér í leiknum á móti Real Sociedad og þarna má sjá glitta í Maradona húðflúrið hans framan á vinstra lærinu.
Lorenzo Insigne sést hér í leiknum á móti Real Sociedad og þarna má sjá glitta í Maradona húðflúrið hans framan á vinstra lærinu. Getty/MB Media

Lorenzo Insigne, fyrirliði Napoli, heiðraði Diego Armando Maradona, með sérstökum og varanlegum hætti.

Diego Armando Maradona féll frá 25. nóvember síðastliðinn og knattspyrnuheimurinn hefur síðan minnst hans með alls konar hætti.

Maradona hefur hvergi syrgður eins mikið utan Argentínu og einmitt í Napolíborg þar sem hann var í guðatölu eins og í heimalandinu.

Napoli ákvað að skýra leikvanginn sinn eftir Diego Armando Maradona en hann var maðurinn á bak við báða meistaratitla félagsins, 1987 og 1990.

Fyrirliði Napoli liðsins gekk nokkrum skrefum lengra en aðrir þegar kom að því að heiðra minningu besta leikmanns félagsins frá upphafi. Lorenzo Insigne fékk sér nefnilega stórt og mikið Maradona húðflúr framan á vinstra lærið sitt.

Lorenzo Insigne frumsýndi nýja Maradona húðflúrið sitt í Evrópudeildarleik Napoli í gær á móti Real Sociedad en 1-1 jafntefli kom báðum liðum áfram í 32 liða úrslitin.

Insigne er 29 ára framherji sem hefur verið hjá Napoli síðan að hann var fimmtán ára gamall. Hann fór á láni fyrstu þrjú ár sín í aðalliðinu en vannst sér sæti í Napoli liðinu árið 2012.

Insigne hefur síðan verið fyrirliði Napoli frá því í febrúar 2019 og tók við ítalska bikarnum sem liðið vann í ár.

Insigne hefur spilað 362 leiki fyrir Napoli í öllum keppnum og skorað í þeim 94 mörk. Hann er með 4 mörk í 7 deildarleikjum á þessari leiktíð.

Það var Valentino Russo sem gerði húðflúrið sem er hið glæsilegasta eins og sjá má á Instagram færslu listamannsins hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×