Innlent

Nýjar reglur um sam­komu­tak­markanir tóku gildi á mið­nætti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á meðal þess sem ætti nú að heyra sögunni til með nýrri reglugerð eru raðir líkt og þessi fyrir utan Líf og list í Smáralind á dögunum en verslanir mega nú taka á móti mun fleiri viðskiptavinum en heimilt hefur verið undanfarið.
Á meðal þess sem ætti nú að heyra sögunni til með nýrri reglugerð eru raðir líkt og þessi fyrir utan Líf og list í Smáralind á dögunum en verslanir mega nú taka á móti mun fleiri viðskiptavinum en heimilt hefur verið undanfarið. Vísir/Vilhelm

Ný reglugerð Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins tók gildi á miðnætti. Nýju reglurnar gilda óvenju lengi eða í rúman mánuð, til 12. janúar á næsta ári.

Samkvæmt reglunum mega sundlaugar og aðrir baðstaðir opna, æfingar fullorðinna í efstu deild í íþróttum innan ÍSÍ mega hefjast sem og sviðslistir og aðrir menningarviðburðir með takmörkunum þó.

Enn er tíu manna samkomubann og tveggja metra regla í gildi. Þá skal nota grímu í þeim aðstæðum þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra fjarlægð, til dæmis í almenningssamgöngum og verslunum. Börn fædd eftir 2005 eru þó undanþegin ákvæðum um fjöldatakmörkun, nálægðarmörk og grímuskyldu.

Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Wednesday, December 9, 2020

Þá mega verslanir taka á móti fimm viðskiptavinum fyrir hverja tíu fermetra en þó að hámarki 100 manns. Veitingastaðir mega hafa fimmtán viðskiptavini inni í einu og vera með opið til klukkan 22 en þó ekki taka á móti nýjum kúnnum eftir klukkan 21.

Líkamsræktarstöðvum, börum og skemmtistöðum er áfram gert að hafa lokað.

Endurskoðunarákvæði er í þessari reglugerð, líkt og öðrum um sóttvarnaráðstafanir, sem kveða á um að stjórnvöld eigi að endurskoða þörfina á takmörkunum eftir því sem efni standa til, hvort heldur sé um að ræða auknar tilslakanir eða hertar aðgerðir.

Helstu breytingar á samkomutakmörkunum samkvæmt tilkynningu heilbrigðisráðuneytis:

 • Fjöldatakmörkun: miðast áfram við 10 manns en með ákveðnum undantekningum
 • Börn: Ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu taka ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar.
 • Verslanir: Allar verslanir mega taka á móti 5 manns á hverja 10 m² en að hámarki 100 manns.
 • Veitingastaðir: Heimilt verður að taka við 15 viðskiptavinum í rými. Heimilt verður að hafa opið til kl. 22.00 en ekki má taka á móti nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21.00.
 • Sund og baðstaðir: Heimilt verður að hafa opið fyrir allt að 50% af hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.
 • Íþróttir ÍSÍ: Íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum eru heimilar. Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar.
 • Aðrar íþróttir: Öllum er heimilt að stunda skipulagðar æfingar utandyra sem krefjast ekki snertingar.
 • Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir verða heimilir með allt að 30 manns á sviði, þ.e. æfingar og sýningar. Heimilt verður að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum og þeim skylt að nota grímu og allt að 100 börnum fæddum 2005 og síðar. Hvorki hlé né áfengissala heimil. Sæti skulu númeruð og skráð á nafn.
 • Jarðarfarir: Hámarksfjöldi í jarðarförum verður 50 manns.
 • Gildistími: Framantaldar breytingar gilda frá 10. desember næstkomandi til 12. janúar 2021.

Breytingar á takmörkun skólastarfs:

 • Ákvæði um blöndun og hámarksfjölda leikskólabarna felld brott. Með þessu móti geta leikskólar aðlagað starfsemi sína betur yfir hátíðirnar þar sem barnahópar eru gjarna sameinaðir milli deilda eða jafnvel leikskóla.
 • 2 metra regla og grímuskylda fellur niður hjá nemendum í 8. til 10. bekk í samræmi við reglugerð um takmarkanir á samkomum.
 • Lestrarrými í framhaldsskólum og háskólum opnað fyrir allt að 30 nemendur.
 • Reglur um skólastarf sem taka gildi frá og með 1. janúar 2021 verða kynntar fljótlega.
 • Gildistími: Framantaldar breytingar gilda frá 10. desember til 31. desember.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.