Erlent

Fimm mánaða fangelsi fyrir að svið­setja hótanir og hatur­s­orð­ræðu gegn sjálfri sér

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Héraðsdómur í Osló komst að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til annars en að konan hafi sjálf sett á svið hótanir gegn sjálfri sér.
Héraðsdómur í Osló komst að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til annars en að konan hafi sjálf sett á svið hótanir gegn sjálfri sér. EPA/Cornelius Poppe

Kona á fertugsaldri í Osló hefur verið dæmd í fimm mánaða fangelsi fyrir að falsa hatursorðræðu og sviðsetja hótanir gegn sjálfri sér. Konan er meðal annars dæmd fyrir að hafa krotað rasísk skilaboð á glugga íbúðarinnar þar sem hún býr og fyrir að kveikja eld fyrir utan heimili sitt.

Konan, sem er 35 ára, er hlýtur dóm fyrir alls níu brot sem framin voru á tíu mánaða tímabili en þrír af fimm mánuðum fangelsisdómsins, sem féll í héraðsdómi í Osló, eru bundnir skilorði að því er fram kemur í frétt Avisa Oslo.

Í tengslum við rannsókn málsins hafði lögreglan komið upp eftirlitsmyndavél fyrir utan blokkina þar sem konan býr, án hennar vitneskju. Ráða mátti af myndefninu að í tvígang í nóvember 2018, gekk manneskja út úr blokkinni sem gekk svo að glugganum og krotaði á hann ljót orð. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að þarna hafi konan sjálf verið að verki svo ekki væri um villst. Konan neitaði aftur á móti sök fyrir dómi og vildi meina að einhver annar hafi verið að verki.

Þá er konan jafnframt fundin sek um að hafa ranglega sakað aðra konu um að hafa uppi umræddar hótanir gegn sér. Þá lýsir dómurinn því sem „sérstaklega alvarlegu“ að konan hafi haldið uppteknum hætti í tíu mánuði og framið níu brot.

Alvarlegt þykir einnig að konan hafi sviðsett hatursglæpi sem jafnan eru rannsökuð sem forgangsmál hjá lögreglu. Mikill tími og mannafli lögreglunnar hafi farið í að rannsaka meinta glæpi sem síðan hafi reynst sviðsettir.

Til viðbótar við fangelsisdóminn verður konunni gert að greiða húsfélaginu bætur sem nema um 32 þúsund íslenskum krónum og sem nemur tæpum 145 þúsund krónum í málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×