Fótbolti

Sveinn Aron skoraði er OB komst í átta liða úr­slit bikarsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveinn Aron skoraði annan leikinn í röð.
Sveinn Aron skoraði annan leikinn í röð. Lars Ronbog/Getty Images

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði fyrra mark OB er liðið komst áfram í 8-liða úrslit danska bikarsins í kvöld. Lauk leiknum með 3-0 sigri OB.

OB heimsótti C-deildarlið Nykøbing og gerðu tvö mörk gestanna með skömmu millibili í fyrri hálfleik út um leikinn. Sveinn Aron kom úrvalsdeildarliði OB yfir á 33. mínútu með góðum skalal eftir sendingu Emmanuel Sabbi. Skömmu síðar bætti Sabbi við öðru marki OB og sigurinn kominn í hús.

Staðan 2-0 í hálfleik en OB bætti við þriðja marki leiksins í uppbótartíma. Mikkel Hyllegaard með markið.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að hvorki Sveinn Aron né Aron Elís væru með kórónuveiruna en Mads Frøkjær, samherji þeirra, greindist með veiruna í gærdag.

Þó OB sé tveimur deildum ofar en Nykøbing þá hafa heimamenn ekki enn tapað leik í deildinni. Eftir þrettán leiki hafa þeir unnið ellefu og gert tvö jafntefli. Leikurinn því ef til vill aðeins erfiðari en hann virtist vera á pappír.

Aron Elís Þrándarson var ekki í leikmannahóp OB í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×