Fótbolti

Hættu við fótboltaleik út af háralit leikmanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn kínverska landsliðsins eru allar svarthærðar.
Leikmenn kínverska landsliðsins eru allar svarthærðar. Getty/VCG/

Vafasöm frestun á fótboltaleik í Kína hefur nú komist í heimsfréttirnar.

Það eru strangar reglur í Kína og það hefur sínar afleiðingar þegar leikmenn mæta of litríkir til leiks í fótboltaleik.

Þetta sannaðist í leik kvennaliða Fuzhou og Jimei í kínverska háskólafótboltanum á dögunum. Leik sem fór aldrei fram.

Leikurinn var flautaður af því að leikmenn úr liðunum tveimur máttu ekki vera með litað hár. Fyrir leikinn var fullt af leikmönnum úr báðum liðum bannað að taka þátt í leiknum af því þeir voru með lit í hárinu.

Leikmenn úr báðum liðum sóttu svartan háralit til að reyna að lita hár viðkomandi leikmanna svo hægt væri að ná í lið.

Það dugði þó ekki alveg til því hár eins leikmanns Fuzhou þótti ekki vera nægilega svart. Liðið stóð uppi með aðeins sex leikmenn og þurfti því að gefa leikinn. Global Times í Kína segir frá þessu.

Íþróttafólk í Kína má ekki lita á sér hárið, strákar mega ekki safna ári og enginn má vera með skrýtna hárgreiðslu eða setja einhverja aukahluti í hárið sitt. Brjóti þau þessar reglur verður þeim vísað úr keppni sem varð líka raunin í þessum leik.

Það eru síðan enn strangari reglur í háskólaíþróttunum þar sem íþróttafólk má ekki heldur ekki vera með húðflúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×