Innlent

Sauma þurfti sex spor í and­lit manns eftir slags­mál í Hlíðunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn var fluttur á bráðadeild Landspítala áður en hann var færður í fangaklefa.
Maðurinn var fluttur á bráðadeild Landspítala áður en hann var færður í fangaklefa. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um slagsmál í Hlíðahverfi klukkan hálftólf í gærkvöldi.

Fjórir menn voru handteknir grunaðir um líkamsárás. Þeir voru allir ölvaðir og voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.

Flytja þurfti einn mannanna til aðhlynningar á bráðadeild áður en hann var færður í fangaklefa en að því er segir í dagbók lögreglu mun sá hafa verið sleginn í andlitið með flösku eða glasi. Á slysadeild þurfti að sauma sex spor í andlit mannsins.

Tveimur klukkustundum áður, klukkan 21:30, hafði lögreglunni borist tilkynning um líkamsárás í Mosfellsbæ.

Að því er segir í dagbók lögreglu höfðu þrír karlmenn og ein kona ráðist þar á par og veitt þeim áverka.

Einhverjar deilur voru á milli fólksins en þau grunuðu voru farin af vettvangi þegar lögregla kom á vettvang. Fólkið er einnig grunað um hótanir, eignaspjöll og rán. Málið er í rannsókn og er ekki vitað nánar um meiðsl þeirra sem ráðist var á.

Laust eftir klukkan hálftólf var síðan tilkynnt um innbrot við Ingólfstorg í miðbænum. Þar er skautasvell Nova þessa dagana og sá vitni menn fara inn í skúr við svellið og stela skautum. Mennirnir fóru af vettvangi í tveimur bílum og er málið í rannsókn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×