Fótbolti

Mörkin 750 á ferli Ronaldo | Bætir hann við listann í dag?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fari svo að Ronaldo skori tvö mörk í dag þá er hann kominn upp í 650 mörk fyrir félagslið á ferlinum. 
Fari svo að Ronaldo skori tvö mörk í dag þá er hann kominn upp í 650 mörk fyrir félagslið á ferlinum.  Thananuwat Srirasant/Getty Images

Cristiano Ronaldo skoraði á dögunum sitt 750. mark á ferlinum. Ótrúlegt afrek og það virðist ekkert vera hægja á kappanum þrátt fyrir að verða 36 ára á næsta ári.

Ronaldo skoraði eitt marka Juventus í 3-0 sigri á Dynamo Kiev í Meistaradeild Evrópu í liðinni viku. Leikurinn var þegar merkilegur fyrir þær sakir að Stephanie Frappart varð þar fyrst kvenna til að dæma leik í Meistaradeildinni.

Ronaldo ákvað svo að skora sitt 750. mark á ferlinum til að gera leikinn enn merkilegri. Fyrir þau sem halda að það sé farið að hægjast á hinum 35 ára gamla Ronaldo þá er vert að nefna að hann skoraði 700. mark ferilsins aðeins í október á síðasta ári.

Ronaldo hefur skorað 132 mörk í Meistaradeild Evrópu og það í aðeins 173 leikjum. Alls hefur hann skorað 648 mörk fyrir þau fjögur félagslið sem hann hefur leikið með. Gæti hann komist upp í 650 þegar Juventus tekur á móti Torino í ítölsku úrvalsdeildinni síðar í dag.

Hann hóf markaskorun sína hjá Sporting Lissabon í Portúgal. Þar skoraði hann fimm mörk áður en hann færði sig um set til Englands og gekk í raðir Manchester United. Þar skoraði hann 119 mörk alls í 292 leikjum. 

Þaðan fór hann til Real og varð markahæsti leikmaður í sögu félagsins með 450 mörk og þá hefur hann skorað 75 mörk í treyju Juventus eftir að hafa gengið til liðs við ítölsku meistarana árið 2018.

Ronaldo hefur skorað 102 mörk fyrir portúgalska landsliðið og hefur aðeins einn leikmaður í sögunni skorað oftar fyrir land sitt en Ronaldo. Það er Ali Daei frá Íran sem skoraði á sínum tíma 109 mörk. Þeir tveir eru einu leikmennirnir sem hafa skorað yfir 100 landsliðsmörk á ferlinum.

Eins og áður sagði virðist ekkert vera hægja á Ronaldo. Hann er kominn með 10 mörk í aðeins átta leikjum fyrir Juventus á leiktíðinni þrátt fyrir að missa mikið úr eftir að hafa greinst með kórónuveiruna.

Forvitnilegt verður að sjá hvort hann nái 650. markinu sínu fyrir félagslið í dag en Juventus tekur á móti Tórinó í nágrannaslag klukkan 17.00 í dag. Er leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.