Íslenski boltinn

Kári Árnason búinn að skrifa undir nýjan samning við Víkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason og Arnar Gunnlaugsson í Víkinni í dag.
Kári Árnason og Arnar Gunnlaugsson í Víkinni í dag. vísir/sigurjón

Kári Árnason og Þórður Ingason skrifuðu í dag undir eins árs samning við Víking og verða því með Fossvogsliðinu í Pepsi Max deild karla sumarið 2021.

Víkingar héldu blaðamannafund í hádeginu þar sem þeir Kári og Þórður gengu endanlega frá nýjum samningnum sínum.

Miðvörðurinn Kári Árnason snéri aftur heim til Víkings sumarið 2019 og hefur leikið 22 leiki með liðinu undanfarin tvö tímabil. Víkingar unnu sinn fyrsta titil í 28 ár eftir að Kári mætti í Víkina en hann missti þó af bikarúrslitaleiknum vegna meiðsla.

Markvörðurinn Þórður Ingason kom líka til Víkings fyrir 2019 tímabilið, hjálpaði Víking að verða bikarmeistari haustið 2019 en var varamarkvörður Ingvars Jónssonar í sumar.

Kári var í fyrrasumar að snúa til baka til uppeldisfélagsins síns eftir fimmtán ár úti í atvinnumennsku. Hann mun nú spila fyrir Víking á 39. aldursárinu. Þórður er 32 ára gamall.

Kári lék mögulega sinn síðasta A-landsleik á Wembley á dögunum en landsleikirnir eru orðnir 87 talsins þar af 64 þeirra eftir að Kári hélt upp á þrítugsafmælið sitt í október 2012.

Kári talaði um það eftir síðasta landsleik sinn að hann gæti ekki endað ferill sinn með Víkingum svona og að hann ætlaði að spila eitt ár í viðbót. Kári náði ekki að spila síðustu leiki liðsins í sumar vegna meiðsla og svo var tímabilið flautað af.

Kári hefur nú staðið við þau stór orð með því að skrifa undir nýjan samning.

Víkingar hafa verið að bæta við sig mönnum því þeir hafa þegar fengið til sín hinn reynslumikla Pablo Punyed frá KR og hinn unga Axel Frey Harðarson frá Gróttu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.