Fótbolti

Vöðvaðir fætur Haaland vöktu mikið umtal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Haaland hefur raðað inn mörkum með liði Borussia Dortmund.
Erling Braut Haaland hefur raðað inn mörkum með liði Borussia Dortmund. Getty/Mario Hommes

Erling Braut Haaland var að láta aðdáendur sína vita af því að hann væri ekki eins mikið meiddur og óttast var í fyrstu en myndin sem hann birti á samfélagsmiðlum fékk flesta til að gapa.

Það vita það flestir sem hafa séð norska framherjann Erling Braut Haaland spila fótbolta að þar er á ferðinni mjög hraustur strákur.

Hinn tvítugi Erling Braut Haaland hefur farið á kostum með Borussia Dortmund, bæði í þýsku deildinni sem og í Meistaradeildinni. Erling Haaland hefur skorað 33 mörk í fyrstu 32 leikjum sínum með þýska liðinu þar af átta mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni.

Áhugi stóru félaga heimsins var mikill á meðan Erling Braut Haaland var hjá Red Bull Salzburg en hann hefur bara aukist eftir spilamennsku hans með Borussia Dortmund.

Það þýðir að fætur hans eru á góðri leið með að verða þeir verðmætustu í fótboltaheiminum enda verður strákurinn ekki þrítugur fyrr en árið 2030. Það ættu því að vera mörg frábær ár fram undan hjá honum.

Mynd Erling Braut Haaland af þessum verðmætu og vöðvuðu fótum fékk marga til þess að gapa en myndina má sjá hér fyrir neðan. Fæturnir eru hreinlega að springa af vöðvum og það er því ekkert skrýtið að svaka sprettir og þrumuskot geri mótherjum hans jafnan lífið leitt.

Óttast var í fyrstu að Erling Braut Haaland hefði spilað sinn síðasta leik á árinu 2020 eftir að hann meiddist í Meistaradeildarleik á móti Lazio á þriðjudagskvöldið en Haaland fullvissaði fylgjendur sína með færslunni að tognunin væri ekki eins slæm og óttast væri.

„Talaði við læknana mína og kem fljótt til baka,“ skrifaði Erling Braut Haaland við myndina eins og sjá má hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.