Innlent

Mótfallin hálendisþjóðgarði þrátt fyrir málamiðlun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Frá Vatnajökulsþjóðgarði sem fellur inn í nýjan hálendisþjóðgarð verði frumvarpið að lögum.
Frá Vatnajökulsþjóðgarði sem fellur inn í nýjan hálendisþjóðgarð verði frumvarpið að lögum. visir/Vilhelm

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar leggst enn gegn frumvarpi umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð. Nýtt frumvarp var lagt fram á Alþingi í gær en í því er reynt að koma til móts við athugasemdir sveitafélaga.

Sautján stjórnarfrumvörp voru lögð fram á vef Alþingis í gærkvöldi. Rétt áður en frestur til að leggja fram þingmál sem eiga að koma á dagskrá fyrir jól rann út. 

Meðal mála sem er nú í annað sinn komið á borð Alþingis er frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð. 

Áform um þjóðgarðinn má rekja til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en ekki er þó einhugur um málið innan stjórnarflokkanna þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn gerðu fyrirvara við frumvarpið áður en það var afgreitt úr þingflokkunum. 

Verði það að lögum verður til nýr þjóðgarður sem nær yfir miðhálendið, eða um þrjátíu prósent af flatarmáli Íslands.

Tuttugu og fjögur sveitarfélög fara með skipulagsvald á miðhálendinu eða eiga þar réttindi. Lögðust sum þeirra mjög gegn málinu og töldu að verið væri að taka af þeim lögbundið skipulagsvald.

Í nýju frumvarpi er reynt að koma til móts við sveitarfélögin og fellt brott ákvæði um að sveitastjórnir séu bundnar af stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins við gerð skipulagsáætlana.

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð.vísir/Egill

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir þessa málamiðlun duga skammt.

„Samt sem áður er það nú þannig að ákvörðun um svæðis- og verndaráætlun er tekin í umdæmisráði sem er skipað fulltrúum ýmissa annarra heldur en viðkomandi sveitarfélags. Þannig að það eru fleiri en fulltrúar þess sveitarfélags, þar sem svæðið er, sem eru að taka ákvarðanir um ýmislegt sem varðar viðkomandi sveitarfélag.“

Sveitarstjórnin sé því enn mótfallin málinu. Ásta segir allt frá upphafi hafa skort greiningu á kostum og göllum þess að stofna þjóðgarð á svæðinu.

„Miðað við nýlega ályktun er sveitarstjórn Bláskógabyggðar enn á móti því að það verði stofnaður þjóðgarður á miðhálendinu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.