Fótbolti

Verður fyrst kvenna til að dæma í Meistara­­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
 Stephanie Frappart sést hér spjalda leikmann AC Omonoia í leik liðsins gegn Granda í Evrópudeildinni þann 26. nóvember.
 Stephanie Frappart sést hér spjalda leikmann AC Omonoia í leik liðsins gegn Granda í Evrópudeildinni þann 26. nóvember. Álex Cámara/Getty Images

Hin franska Stephanie Frappart verður á morgun fyrsta konan til að dæma leik Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, það er að segja karlamegin. Dæmir hún leik Juventus og Dynamo Kiev í G-riðli.

Hin 36 ára gamla Frappart hefur áður dæmt stóra leiki í Evrópuboltanum þar sem tvö karlalið mætast. Dæmdi hún til að mynda leik Liverpool og Chelsea í Ofurbikar Evrópu á síðasta ári. Leik sem Liverpool vann í vítaspyrnukeppni. 

Fyrir leik Liverpool og Chelsea sagðist Frappart vilja sýna að kvenmenn gætu verið alveg jafn góðir dómarar og karlmenn.

Síðan þá hefur hún dæmt tvo leiki í Evrópudeildinni og nú er loks komið að deild þeirra bestu.

Í apríl á síðasta ári varð hún fyrsta konan til að dæma leik í úrvalsdeild karla í Frakkland, dæmdi hún þá leik Amiens og Strasbourg. Einnig var hún dómarinn í úrslitaleik HM kvenna í knattspyrnu árið 2019 þar sem Holland og Bandaríkin mættust. 

Juventus og Barcelona eru nú þegar komin upp úr G-riðli. Dynamo eru hins vegar í harðri baráttu við Ferencvaros um 3. sæti riðilsins sem gefur sæti í Evrópudeildinni.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.