Innlent

Hersir Aron nýr aðstoðarmaður Bjarna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hersir Aron Ólafsson hefur undanfarið starfað sem lögfræðingur og regluvörður Ölmu íbúðafélags hf., en áður starfaði hann hjá LOGOS lögmannsþjónustu.
Hersir Aron Ólafsson hefur undanfarið starfað sem lögfræðingur og regluvörður Ölmu íbúðafélags hf., en áður starfaði hann hjá LOGOS lögmannsþjónustu. Vísir

Hersir Aron Ólafsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta kemur fram á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Hersir Aron fyllir í skarð Svanhildar Hólm sem hætti á dögunum sem aðstoðarmaður til að taka við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands.

Hersir Aron Ólafsson er skráður sem aðstoðarmaður ráðherra á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Hersir Aron er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands hvar hann vann til verðlauna fyrir námsárangur sinn. Honum hefur brugðið fyrir í auglýsingum háskólans fyrir laganám. 

Hann starfaði sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu, síðar á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar auk þess að vera einn þáttastjórnenda Íslands í dag.

Hersir Aron verður annar tveggja aðstoðarmanna Bjarna en auk þess er Páll Ásgeir Guðmundsson aðstoðarmaður hans.

Bjarni Benediktsson á tröppum Ráðherrabústaðarins í Tjarnargötu.Vísir/Vilhelm

Hersir Aron hefur vakið athygli fyrir pistlaskrif sín þar sem hann hefur meðal annars skrifað um forsjárhyggju, tíst dómsmálaráðherra um áfengissölu innanlands, frelsið og dauðarefsingar. Sömuleiðis fyrir skrif um þá sem berjast fyrir nýrri stjórnarskrá og framgöngu þeirra.

Ráðuneytið hefur eftir að frétt Vísis birtist sent frá sér tilkynningu um ráðninguna.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur ráðið Hersi Aron Ólafsson sem aðstoðarmann sinn. Hersir er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur lokið BA-og meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands, auk prófs í verðbréfaviðskiptum.

Undanfarið hefur Hersir starfað sem lögfræðingur og regluvörður Ölmu íbúðafélags hf., en áður starfaði hann hjá LOGOS lögmannsþjónustu, sem fréttamaður og þáttastjórnandi í Íslandi í dag á Stöð 2 og sem blaðamaður hjá Árvakri.

Hersir hefur jafnframt verið virkur í félagsstörfum og meðal annars setið í stjórn bókaútgáfunnar Codex, gegnt starfi varaformanns Orators, félags laganema, og þjálfað ræðulið Verzlunarskóla Íslands.

Sambýliskona Hersis er Rósa Kristinsdóttir, yfirlögfræðingur Akta sjóða hf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.