Lögfræðiprófessorinn Philippe Sands við University College í Lundúnum og Florence Mumba, fyrrverandi dómari við Alþjóðlega sakamáladómstólinn, fara fyrir hópnum, að því er kom fram í The Guardian í morgun.
Markmiðið er að búa til lagalega skilgreiningu á hugtakinu umhverfismorð og taka það inn í alþjóðalög á sama hátt og hefur verið gert með glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og þjóðarmorð. Þannig vill teymið að gert sé refsivert að eyðileggja vistkerfi.
Hópurinn var settur saman að beiðni sænskra þingmanna. Nokkur fjöldi smárra eyríkja, sem eru í einna mestri hættu vegna loftslagsbreytinga og hækkandi sjávarborðs, kölluðu sömuleiðis eftir því að sams komar tillaga yrði tekin til alvarlegrar íhugunar á árlegri ráðstefnu dómstólsins í desember á síðasta ári.
Tillagan nýtur einnig stuðnings á meðal stjórnvalda í Frakklandi og Belgíu, og þá hefur breska stjórnarandstaðan sagst vilja innleiða löggjöf um umhverfismorð. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur áður sagst vilja setja mál sem tengjast eyðileggingu umhverfisins í forgang.