Fótbolti

Neymar fljótastur í sögu PSG til að ná 50 mörkum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar skoraði sitt 50. mark í frönsku úrvalsdeildinni er PSG gerði 2-2 jafntefli við Bordeaux á heimavelli í gær. 
Neymar skoraði sitt 50. mark í frönsku úrvalsdeildinni er PSG gerði 2-2 jafntefli við Bordeaux á heimavelli í gær.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar skoraði í gær sitt 50. deildarmark í búning franska stórliðsins Paris Saint-Germain. Enginn leikmaður í sögu félagsins hefur verið jafn fljótur að skora 50 mörk í frönsku úrvalsdeildinni.

PSG mætti Bordeaux á Parc des Princes, heimavelli sínum, gær í Ligue 1 – frönsku úrvalsdeildinni. Þó svo að leiknum hafi lokið með 2-2 jafntefli þá hefur Neymar eflaust farið nokkuð sáttur á koddann með að taka metið ef met skyldi kalla.

Hann skoraði fyrra mark PSG úr vítaspyrnu og varð þar með eins og áður sagði fljótasti leikmaður í sögu félagsins til að skora 50. deildarmörk. Tók það hann aðeins 58 leiki til að skora mörkin 50.

Hvorki Zlatan Ibrahimović né Edinson Cavani voru svo fljótir en báðir skoruðu yfir 100 mörk fyrir félagið í Ligue 1.

Eftir hörmulega byrjun á tímabilinu hefur PSG rétt úr kútnum og er nú komið aftur á topp deildarinnar. Jafntefli í gær þýðir þó að Lille getur jafnað Parísarliðið að stigum þar sem aðeins munar þremur stigum á liðunum og Lille á leik til góða.

Marseille er sem stendur í 3. sæti með fjórum stigum minna en PSG en á þó tvo leiki til góða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.