Erlent

Máli Trumps í Pennsylvaínu lýst sem innihaldslausu og vísað frá

Samúel Karl Ólason skrifar
Málflutningur Donald Trumps og bandamanna hans hefur ekki hlotið hljómgrunn meðal dómara í Bandaríkjunum.
Málflutningur Donald Trumps og bandamanna hans hefur ekki hlotið hljómgrunn meðal dómara í Bandaríkjunum. AP/Patrick Semansky

Áfrýjunardómstóll í Fíladelfíu í Bandaríkjunum hefur vísað frá máli sem lögfræðingar Donald Trumps, forseta Bandaríkjanna, höfðuðu með því markmiði að breyta úrslitum forsetakosninganna í Pennsylvaínu.

Þrír dómarar, sem allir voru skipaðir af Repúblikönum og þar af einn sem skipaður var af Trump sjálfum, tóku ákvörðunina samhljóða.

Stephanos Bibas, dómarinn sem skipaður var af Trump, skrifaði í úrskurðinn að ásakanir um ósanngirni í kosningum væru alvarlegar. Það að halda því fram að kosningar hefðu verið ósanngjarnar gerðu þær ekki sjálfkrafa ósanngjarnar. Trump-liðar þyrftu að sýna fram á sannanir fyrir ásökunum sínum, sem dómarinn sagði vera óljósar, og það hefðu þeir ekki gert.

Lýsti hann málflutningnum sem innihaldslausum.

Í aðalmeðferð málsins staðhæfði Rudy Giuliani, lögmaður Trumps, að umfangsmikil kosningasvik hefðu átt sér stað í Pennsylvaínu en færði engar sönnur fyrir því fyrir dómi. Þessi umrædda lögsókn sneri að því að hallað hefði á Repúblikana á tilteknum svæðum í Pennsylvaínu þar sem kjósendum var gert kleift að laga mistök á kjörseðlum og koma í veg fyrir að þeir væru ógildir.

Dómararnir neituðu einnig að stöðva staðfestingu úrslit kosninganna í Pennsylvaínu, sem gert var á þriðjudaginn. Joe Biden vann ríkið samkvæmt opinberum tölum með rúmlega 80 þúsund atkvæðum.

Lögmenn Trumps og bandamenn hans hafa höfðað fjölda mála í sex ríkjum vegna kosninganna en þau mál hafa fengið lítinn hljómgrunn meðal dómara. Langflestum þeirra hefur verið vísað frá.

Jenna Ellis, einn lögmannanna í teymi Trumps, sagði í kjölfarið að næsta skref væri að áfrýja málinu til Hæstaréttar Bandaríkjanna. Lýsti hún dómurunum þremur í Pennsylvaínu sem aðgerðasinnum. Giuliani sagði þó í kjölfarið að verið væri að skoða næstu skref.

Trump hefur sagt að hann bindi vonir við að Hæstiréttur muni grípa inn í kosningarnar, eins og gert var árið 2000. Þá úrskurðuðu dómarar að endurtalningu skyldi hætt og þar með að George W. Bush yrði forseti en ekki Al Gore.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×