Innlent

Sak­laust kaffi­boð hjá ömmu sendi nokkra í ein­angrun

Sylvía Hall skrifar
Rögnvaldur Ólafsson segist áhyggjufullur yfir stöðunni.
Rögnvaldur Ólafsson segist áhyggjufullur yfir stöðunni.

Nokkrir hafa þurft í einangrun með kórónuveirusmit eftir kaffiboð innan fjölskyldu um síðustu helgi. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir þetta sýna vel hversu lítið þurfi til að smitum fari fjölgandi.

„Við höfum dæmi um það bara frá síðustu helgi þar sem var einfalt, saklaust kaffiboð þar sem amma var að bjóða heim til sín börnunum sínum, barnabörnum og tengdafólki. Það kemur upp smit þar sem er búið að leggja nokkra inn í einangrun. Þetta þarf ekki að vera flókið eða stórt til að hafa afleiðingar,“ sagði Rögnvaldur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann segir almannavarnir hafa verulegar áhyggjur af þróuninni. Fólk sé komið í jólaskap og vilji halda í hefðirnar, hitta fólkið sitt og sinna hinum hefðbundna jólaundirbúningi. Mögulega sé fólk farið að missa þolinmæðina gagnvart aðgerðunum.

„Við höfum áhyggjur af því að við séum öll að missa þolinmæðina svolítið og séum ekki að ná að halda þetta út.“

Smitstuðullinn hér á landi er kominn upp fyrir 1,5 og hefur hann verið á uppleið nokkra daga í röð. Allt fyrir ofan 1 er ávísun á aðra bylgju samkvæmt Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði. Fólki í sóttkví fjölgar á milli daga, en aðeins þrír af þeim ellefu sem greindust í gær voru í sóttkví við greiningu.

Engin dæmi um smit í verslunum 

„Leiðbeiningarnar eru nokkuð góðar og grímunotkun hefur verið býsna góð. Við erum ekki að sjá nein tilvik sem við tengjum beint við verslanirnar, þannig að þetta virðist vera að virka ágætlega,“ segir Rögnvaldur um stöðuna í jólaverslun.

Tilboðsdagar og jólatíminn hefur sett sitt mark á verslun undanfarna daga, en á upplýsingafundi í dag var ranglega fullyrt að starfsfólk í Kringlunni hefði smitast.

„Þetta skrifast á óhappatilviljun. Það er mikið að gera hjá okkur, í mörg horn að líta og hlutirnir oft að gerast hratt. Í samskiptum okkar við rakningarteymið varð þessi leiði misskilningur að nafn Kringlunnar kom upp, sem tengist samt skrifstofum sem standa við Kringluna. Þannig fór þessi misskilningur af stað,“ segir Rögnvaldur. 


Tengdar fréttir

Segir Kringluna öruggan stað til að heimsækja

Framkvæmdastjóri Kringlunnar segir Kringluna öruggan stað til að heimsækja en minnir á mikilvægi sóttvarna. Engin smit hafi komið upp nýlega í verslunum eða veitingastöðum Kringlunnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.