Enski boltinn

Maradona spilaði einu sinni fyrir enskt félag og það á lánuðum skóm

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona í leik með Tottenham Hotspur í maí 1986. Rúmum mánuði síðar var hann orðinn heimsmeistari með argentínska landsliðinu.
Diego Maradona í leik með Tottenham Hotspur í maí 1986. Rúmum mánuði síðar var hann orðinn heimsmeistari með argentínska landsliðinu. Getty/Allsport

Diego Maradona spilaði aldrei í ensku deildinni en hann náði þó einu sinni að spila fyrir enskt félag á níunda áratugnum.

Diego Maradona spilaði aldrei í ensku deildinni en hann náði þó einu sinni að spila fyrir enskt félag á níunda áratugnum.

Gamlir leikmenn Tottenham frá níunda áratugnum hafa rifjað það upp eftir fráfall Diego Maradona í gær að hann klæddist einu sinni búningi Tottenham í leik.

Diego Maradona fór í Tottenham búninginn árið 1986 og spilaði leik fyrir framan þrjátíu þúsund manns á White Hart Lane.

Leikurinn sem um ræðir var sérstakur heiðursleikur fyrir landa hans Ossie Ardiles sem spilaði með Tottenham frá 1978 til 1988. Tottenham spilaði þá góðgerðaleik á móti ítalska félaginu Internazionale.

Leikurinn fór fram í maí 1986 eða aðeins mánuði áður en Maradona tók yfir heimsmeistarakeppnina í Mexíkó og leiddi argentínska landsliðið til sigurs.

Maradona var tilbúinn að spila leikinn þar sem hann var mikill vinur Ossie Ardiles sem hann spilaði um tíma með í argentínska landsliðinu. Báðir náðu þeir að verða heimsmeistarar með Argentínu en þó ekki samana. Ossie Ardiles var í sigurliðinu 1978 en Maradona auðvitað í 1986 liðinu.

Diego Maradona mætti reyndar skólaus til leiks og þurfti að fá skó lánaða hjá markakónginum Clive Allen.  Allen notaði hitt parið sem var með og skoraði annað markið í 2-1 sigri en Maradona náði ekki að skora þótt að hann hafi sýnt mörg flott tilþrif.

Það fylgir reyndar sögunni að hvort sem það var töfrum Maradona að þakka þá átti Clive Allen sitt besta tímabil á ferlinum 1986-87 eða næstu leiktíð á eftir. Allen skoraði þá 33 mörk í deildinni og 49 mörk í öllum keppnum.

Diego Maradona spilaði við hlið leikmanna eins og þeirra Glenn Hoddle og Chris Waddle þetta eftirminnilega kvöld á White Hart Lane.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra þeirra minnast þessa leiks.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.