Atalanta vann á Anfi­eld | Mikael lék tuttugu mínútur í tapi gegn Ajax

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Atalanta fagna öðru marka sinna í kvöld.
Leikmenn Atalanta fagna öðru marka sinna í kvöld. Andrew Powell/Getty Images

Englandsmeistarar Liverpool töpuðu á heimavelli gegn Atalanta í D-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Lokatölur 0-2 og segja má að Atalanta hafi hefnt fyrir tapið á Ítalíu í síðustu umferð. Þá vann Ajax 3-1 sigur á Midtjylland þar sem Mikael Neville Anderson spilaði rúmar tuttugu mínútur.

Jürgen Klopp gerði fjölda breytinga á byrjunarliði sínu fyrir leik kvöldsins. Var varnarlína liðsins sérstaklega óreynd en leikplanið þó eflaust að skora fleiri en andstæðingarnir. Það gekk ekki alveg upp þó svo að staðan hafi verið markalaus í hálfleik.

Það var svo á fjögurra mínútna kafla í síðari hálfleik sem gestirnir hirtu stigin þrjú. Josip Iličić kom Atalanta yfir með marki þegar klukkutími var liðinn. Í þann mund er Iličić skoraði var Klopp að undirbúa fjórfalda skiptingu. Sendi hann þá Andrew Robertson, Roberto Firmino, Fabinho og Diogo Jota inn á en allt kom fyrir ekki.

Robin Gosens tvöfaldaði forystu gestana aðeins fjórum mínútum eftir fyrra mark þeirra. Varamenn Liverpool náðu engum takti og leiknum lauk með 2-0 sigri Atalanta.

Þá vann Ajax öruggan 3-1 sigur á Midtjylland í hinum leik riðilsins en hollenska liðið óð í færum í kvöld. Ryan Gravenbach, Noussair Mazroui og David Neres skoruðu mörk Ajax. Awer Mabil skoraði fyrir gestina frá Darnmörku.

Mikael Neville Anderson kom inn af varamannabekk Midtjylland á 69. mínútu. Þá var staðan orðin 3-0 Ajax í vil.

Mikil spenna er í riðlinum eftir leiki kvöldsins. Liverpool trónir á toppi hans með níu stig en bæði Ajax og Atalanta koma þar á eftir með sjö stig. Mikael og félagar í Midtjylland eru hins vegar enn án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira