„Það er ekkert sem réttlætir það að björgunarþyrlur séu ekki tiltækar,“ sagði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingar í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.
Líkt og fram hefur til komið verður frá miðnætti engin þyrla laus í útköll næstu tvo sólarhringa vegna verkfalls flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Boðað hefur verið til fundar í kjaradeilu þeirra við ríkið hjá ríkissáttasemjara klukkan fjögur í dag.
Albertína sagði ábyrgð ríkisvaldsins mikla og að kalla megi það kaldhæðni örlaganna að í kvöld sé varað við fyrsta vetrarstorminum.
„Viðvaranir Veðurstofunnar hafa eflaust vakið ugg í brjósti þeirra fjölmörgu sem lifðu storm eftir storm síðasta vetur og óttast eðlilega að það versta.“
Í máli Albertínu kom fram að Landhelgisgæslan hafi farið í 280 útköll á síðasta ári. „Tveir þriðju þeirra voru vegna alvarlegra slysa eða veikinda og þriðjungur vegna björgunaraðgerða sem þýðir að það eru um 63% líkur á útkalli næstu tvo daga,“ sagði Albertína.

Þetta sé óásættanleg staða sem kalli á heildarumræðu um skipulag almannavarna í landinu. „Þá verðum við að spyrja okkur hvort eðlilegt sé að allt viðbragðskerfið sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu og skoða það vandlega hvort réttast væri að dreifa viðbragðsaðilum um landið til að stytta viðbragðstíma þeirra,“ sagði Albertína.
„Við búum í dreifbýlu landi með fjölmörgum fjallvegum. Við búum í landi sem byggir á sjósókn og ef vel ætti að vera ættum við að hafa að minnsta kosti þrjár þyrlur til taks.“