Yfirvöld í Rússlandi hafa opinberað metfjölda látinna vegna Covid-19, tvo daga í röð. Minnst 507 dóu vegna veirunnar í gær og er það í fyrsta sinn sem talan fer yfir 500 í Rússlandi. Í gær var fjöldinn 491 og var það einnig met. Alls hafa 37.538 dáið vegna Covid-19 í Rússlandi.
Nýsmitaðir voru 23.675 í gær. Þar af 4.685 í Moskvu og 3.421 í St. Pétursborg en þar hefur smituðum farið fjölgandi að undanförnu.
Nýgengi smita hefur hækkað úr 6,1 einum í 17,1 á hverja hundrað þúsund íbúa á undanförnum vikum. Tass fréttaveitan, sem er í eigu ríkisins, segir að nú séu 464.564 virk smit í landinu, samkvæmt opinberum tölum.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sagði fyrir viku síðan að hann hefði áhyggjur af stöðunni í Rússlandi. Varaði hann sérstaklega héraðsstjóra Rússlands við því að reyna að fegra stöðuna í héruðum sem þeir stjórna.
Sjúkrahús í borginni Ufa var nýverið dæmt til að greiða sekt fyrir að hafa leyna rúmlega 1.400 smitum. Embættismenn í borginni segja að um misskilning hafi verið að ræða og lögmenn sjúkrahússins segjast ætla að áfrýja niðurstöðunni.
Samkvæmt frétt Moscow Times segja yfirvöld í Rússlandi að það að þessum smitum hafi verið leynt hafi leitt til umfangsmikillar dreifingar veirunnar í héraðinu.