Enski boltinn

Jóhann Berg sá sjö­tti sem nær hundrað leikjum í ensku úr­vals­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhann Berg í leik gegn Arsenal á síðasta ári.
Jóhann Berg í leik gegn Arsenal á síðasta ári. Visionhaus/Getty Images

Jóhann Berg var í byrjunarliði Burnley er liðið lagði Crystal Palace að velli 1-0 á heimavelli sínum, Turf Moor, í kvöld. Var það hans 100. deildarleikur fyrir félagið en hann gekk í raðir Burnley sumarið 2016. Þar áður hafði hann leikið með Charlton Athletic í ensku B-deildinni.

Jóhann Berg hefur glímt við mikil meiðsli undanfarin misseri. Hann virðist þó vera kominn á gott ról nú og var í byrjunarliði Burnley í kvöld.

Eftir vistaskiptin sumarið 2016 þá tók það Jóhann nokkra leiki að vinna sér inn sæti í byrjunarliði félagsins. Kom hann inn af bekknum gegn Swansea City, Liverpool og Chelsea áður en hann var í byrjunarliði gegn Hull City. Þann 26. september 2016 lék Jóhann sinn fyrsta leik frá upphafi til enda í ensku úrvalsdeildinni. Þá vann Burnley 2-0 sigur á Watford. Hans fyrsta mark sem og fyrsta stoðsendingin kom í 3-2 sigri á Crystal Palace þann 5. nóvember sama ár.

Leikurinn gegn Palace í kvöld var svo 100. leikur Jóhanns í deild þeirra bestu á Englandi. Þar með er hann sjötti Íslendingurinn sem nær þeim áfanga. Hermann Hreiðarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Guðni Bergsson og Grétar Rafn Steinsson eru hinir Íslendingarnir sem hafa náð þeim áfanga.

Alls hefur Jóhann Berg skorað sjö mörk og lagt upp 17 í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.