Enski boltinn

Liverpool setti félagsmet með sigrinum á Leicester

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Diogo Jota og Roberto Firmino voru báðir á skotskónum gegn Leicester.
Diogo Jota og Roberto Firmino voru báðir á skotskónum gegn Leicester. getty/Jon Super

Liverpool setti félagsmet með sigrinum á Leicester City, 3-0, í gær. Englandsmeistararnir hafa nú leikið 64 deildarleiki á Anfield í röð án þess að tapa.

Gamla metið var sett milli febrúar 1978 og janúar 1981 en Liverpool lék þá 63 deildarleiki í röð á Anfield án þess að tapa. Leicester stöðvaði Liverpool stöðvaði loks þessu ósigruðu hrinu Liverpool 1981. Refirnir áttu möguleika á að endurtaka leikinn í gærkvöldi en voru aldrei líklegir til þess.

Jonny Evans (sjálfsmark), Diogo Jota og Roberto Firmino skoruðu mörk Liverpool sem er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, jafn mörg og topplið Tottenham en lakari markatölu.

Síðasta liðið í ensku úrvalsdeildinni sem fór heim með þrjú stig frá Anfield er Crystal Palace eftir 1-2 sigur 23. apríl 2017. Síðan þá hefur Liverpool leikið 64 deildarleiki á Anfield án taps.

Rauði herinn hefur unnið 53 af þessum 64 leikjum og gert ellefu jafntefli. Í þessum 64 leikjum hefur Liverpool skorað 169 mörk, aðeins fengið á sig 42 mörk og haldið marki sínu 34 sinnum hreinu.

Fjölmarga sterka leikmenn vantaði í lið Liverpool í gær en það virtist engu breyta. Liðið hafði mikla yfirburði gegn Leicester sem var á toppi ensku úrvalsdeildarinnar fyrir leikinn og hefði getað unnið stærri sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×