Ísraelski herinn gerði loftárásir á Gasaströndinni eftir að herskáir Palestínumenn skutu eldflaugum inn í Ísrael í gærkvöldi. Engan sakaði í árásunum en lögreglan í Ísrael segir að verksmiðja í borgini Ashkelon hafi skemmst þegar hún varð fyrir palestínsku eldflauginni.
Sjónarvottar sem Reuters-fréttastofan ræddi við sögðust hafa séð ísraelsk flugskeyti hæfa nokkra staði í Gasaborg og í Rafah og Khan Younis á sunnanverðri Gasaströndinni fyrir sólarupprás í morgun. Logar og reykur steig upp á nokkrum stöðum.
Talsmenn ísraelska hersins fullyrða að loftárásirnar hafi beinst að eldflaugaverksmiðjum Hamas-samtakanna sem fara með völdin á Gasa, neðanjarðarbirgi og þjálfunarbúðum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Enginn hópur hefur enn lýst yfir ábyrgð á eldflaugunum sem var skotið frá Gasaströndinni í gærkvöldi en Ísraelar skella skuldinni á Hamas. Ísraelsher og samtökin háðu stríð árið 2014 en minni skærur hafa átt sér stað síðan. Tiltölulega friðsamlegt hefur þó verið á Gasa undanfarna mánuði.