Erlent

Dvöldu í strandaðri ferju við Álandseyjar í nótt

Kjartan Kjartansson skrifar
Viking Grace strandað í sjávarmálinu við Maríuhöfn í gær.
Viking Grace strandað í sjávarmálinu við Maríuhöfn í gær. AP/Niclas Nordlund/Lehtikuva

Rúmlega þrjú hundruð farþegar og tæplega hundrað manna áhöfn ferjunnar Viking Grace dvöldu um borð í ferjunni í nótt eftir að hún strandaði í illviðri við strendur Álandseyja í gær. Byrjað var að flytja farþegana frá borði í morgun.

Ferjan strandaði rétt um hálfan kílómetra fyrir utan höfnina í Maríuhöfn, höfuðstað Álandseyja í gær, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE. Hún var á leið á milli Turku á vesturströnd Finnlands og Stokkhólms, höfuðborgar Svíþjóðar. Um borð var 331 farþegi og 98 manna áhöfn.

Vindhraði mældist 26-27 metrar á sekúndu þegar ferjan strandaði í gær. Engin hætta var sögð á ferðum en kafarar staðfestu í gær að enginn leki hefði komið á ferjuna sem er á vegum Viking Line útgerðarinnar.

Sænska ríkissjónvarpið SVT segir að byrjað hafi verið að flytja fólk frá borði klukkan níu að finnskum tíma í morgun, klukkan sjö að íslenskum tíma.

Þetta er í annað skiptið sem ferja Viking Line strandar við Álandseyjar í haust. Viking Amorella strandaði þar í september og þurfti að flytja farþega frá borði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.