Erlent

Dóms­máli vísað frá í Penn­syl­vaníu en Trump vill aðra endur­talningu í Georgíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Rudy Giuliani og Sydney Powell (lengst til vinstri) á furðulegum fréttamannafundi sem þau héldu á fimmtudag. Dómari sagði ásakanir þeirra um stórfelld svik ekki studdar staðreyndum.
Rudy Giuliani og Sydney Powell (lengst til vinstri) á furðulegum fréttamannafundi sem þau héldu á fimmtudag. Dómari sagði ásakanir þeirra um stórfelld svik ekki studdar staðreyndum. AP/Jacquelyn Martin

Alríkisdómari í Pennsylvaníu vísaði frá málsókn framboðs Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, vegna forsetakosninganna þar í gær. Framboðið fór fram á aðra endurtalningu atkvæða í Georgíu þrátt fyrir að handtalning hafi þegar staðfest að Joe Biden, frambjóðandi demókrata, hafi farið með sigur af hólmi þar.

Ekkert lát er á tilraunum Trump forseta og bandamanna hans til þess að snúa við úrslitum forsetakosninganna sem hann tapaði 3. nóvember. Enn heldur hann því fram að hann hafi í raun unnið og að hann hafi verið fórnarlamb stórfelldra kosningasvika.

Máli hans í Pennsylvaníu var vísað frá í gær vegna þess að dómari þar taldi að lögmenn forsetans hefðu aðeins lagt fram „stirð lagarök án staðreynda og ásakanir sem byggjast á tilgátum“. Reuters-fréttastofan segir að Matthew Brann, dómarinn í málinu, sé repúblikani en hafi verið skipaður af Barack Obama, fyrrverandi forseta.

Fór Brann hörðum orðum um málsóknina sem hann líkti við „skrímsli Frankenstein“. Krafa framboðs Trump hafi falið í sér að um sjö milljónir manna yrðu sviptar atkvæðarétti sínum.

„Maður byggist við því að þegar hann sækist eftir svo sláandi útkomu kæmi stefnandi þungvopnaður knýjandi lagarökum og efnislegum sönnunum fyrir víðtækri spillingu. Það hefur ekki gerst,“ sagði í áliti Brann sem vísaði málinu varanlega frá dómnum.

Framboðið boðaði strax áfrýjun til alríkisáfrýjunardómstóls í yfirlýsingu sem það sendi frá sér. Fagnaði það að niðurstaðan hefði fengist hratt því málið kæmist þannig fyrr fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna. Rudy Giuliani, persónulegur lögmaður Trump, var skrifaður fyrir yfirlýsingunni.

Biden fékk um 81.000 fleiri atkvæði en Trump í Pennsylvaníu. Staðfesta á úrslitin formlega þar á morgun. Málsókn framboðs Trump byggðist á því að eftirlitsmenn þess hefðu ekki fengið nægilegan aðgang að talningu hátt í sjö hundruð þúsund póstatkvæða. Því sagðist framboðið telja atkvæðin „ólögleg“.

Svikabrigsl í Georgíu þrátt fyrir endurtalningu

Í Georgíu var sigur Joe Biden staðfestur eftir endurtalningu atkvæða á föstudag. Engu að síður hefur Trump-framboðið nú farið fram á aðra endurtalningu sem nær útilokað er að hafi nokkur áhrif á úrslitin.

Í yfirlýsingu sagði framboðið að endurtalningin yrði þó ekkert nema „svikamylla“ nema að bornar yrði saman undirskriftir kjósenda þegar þeir greiddu atkvæði annars vegar og á kjörskrá hins vegar. Það var þegar gert við fyrri talningar atkvæðanna.

Einn lögmanna Trump-framboðsins hélt því fram í sjónvarpsviðtali að Brian Kemp, ríkisstjóra Georgíu og repúblikana, sem skrifaði undir staðfestingu kosningaúrslitanna á föstudag hefði verið mútað af framleiðendum kosningavéla. 

Framboðið hefur haldið uppi framandlegum samsæriskenningum um að vélarnar hafi á einhvern hátt „breytt“ atkvæðum Trump í atkvæði til Biden og að það hafi verið liður í samsæri á vegum Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela, um að hagræða úrslitunum fyrir Biden. Chavez hefur verið látinn í sjö ár og engin tengsl eru á milli fyrirtækjanna og stjórnvalda í Venesúela.

Trump hunsar bónir þingmanna

Eftir að máli Trump í Pennsylvaníu var vísað frá stigu nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins fram og þrýstu á hann að viðurkenna loks úrslit kosninganna.

Pat Toomey, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Pennsylvaníu, sagði niðurstöðuna útiloka möguleikann á að Trump vinni sigur í ríkinu fyrir dómstólum og hvatti forsetann til að viðurkenna úrslitin.

Liz Cheney, einn leiðtoga flokksins í fulltrúadeild þingsins, bað Trump um að virða „helgi kosninganna“ ef hann næði ekki árangri fyrir dómstólum.

Trump lét þau hvatningarorð sér þó sem vind um eyru þjóta. Í röð tísta í gærkvöldi sat hann fastur við sinn keip. Fullyrti hann ranglega að „rannsakendur“ hans hefðu fundið hundruð þúsunda „sviksamlegra“ atkvæða sem dygðu til að breyta úrslitum í að minnsta kosti fjórum ríkjum og þar með kosningunum í heild.

„Vonandi munu dómstólar og/eða þingin hafa HUGREKKI til að gera það sem þarf að gera til að viðhalda heilindum kosninganna okkar og Bandaríkjanna sjálfra. HEIMURINN FYLGIST MEÐ!!!“ tísti forsetinn.

Kallaði hann þar með berum orðum eftir því að ríkisþing þar sem repúblikanar fara með meirihluta taki fram fyrir hendurnar á kjósendum og velji kjörmenn til að greiða honum atkvæði í stað Biden. Það hefur verið kjarni tilrauna Trump og bandamanna hans til að snúa við úrslitum kosninganna. Þær byggja á hæpnum lagalegum grunni og er afar ólíkleg til að bera árangur.

Leiðtogar repúblikana í Michigan, sem Biden sigraði með meira en 150.000 atkvæðum, komu til fundar við Trump í Hvíta húsinu á föstudag. Eftir fundinn sögðust þeir ekki hafa séð neinar upplýsingar sem gætu snúið við úrslitum kosninganna þar.


Tengdar fréttir

Fordæma aðfarir Trump sem „ólýðræðislegar“

Tveir öldungadeildarþingmenn úr Repúblikanaflokki Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, gagnrýna harðlega „ólýðræðislegar“ tilraunir hans til þess að snúa við úrslitum forsetakosninganna sem hann tapaði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×