Enski boltinn

Klopp: Hef engan tíma fyrir þýska landsliðið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jurgen Klopp
Jurgen Klopp vísir/getty

Jurgen Klopp kveðst hafa nóg að gera í starfi sínu sem knattspyrnustjóri Liverpool og segir það ekki koma til greina að taka við landsliði Þýskalands.

Hann hefur verið orðaður við starfið undanfarna daga en Joachim Löw þykir valtur í sessi eftir niðurlæginguna gegn Spánverjum á dögunum.

Klopp var spurður út í sögusagnirnar.

„Einhvern tímann í framtíðinni, kannski. En núna? Nei, ég hef engan tíma í það. Ég er með starf og það er ansi krefjandi starf.“

„Ég er ekki viss um að það hafi einhver hjá þeim verið að óska eftir mér. En ef þeir vita það ekki þá er ég með starf hjá Liverpool og þó veðrið sé vont hérna þá er ég ánægður í starfi,“ sagði Klopp sem kveðst ekki hafa tíma til að svo mikið sem hugsa um önnur störf.

„Ég er ábyrgur fyrir mörgum hlutum hérna svo ég er ekki að leita mér að nýrri áskorun. Ég hef nægar áskoranir hér á hverjum degi.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.