Enski boltinn

Sagði Aubameyang að þakka fyrir að geta sofið í rúmi

Sindri Sverrisson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang er klár í slaginn með Arsenal um helgina.
Pierre-Emerick Aubameyang er klár í slaginn með Arsenal um helgina. Getty/Visionhaus

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að landsliðsferli Pierre-Emerick Aubameyang sé ekki lokið þó að landsliðsþjálfari Gabons hafi gefið það í skyn.

Aubameyang er mættur aftur til Lundúna eftir Afríkuför sína í landsleikjahléinu og tilbúinn að mæta Leeds á sunnudaginn.

Markahrókurinn birti um síðustu helgi myndir af sér og sofandi liðsfélögum úr landsliði Gabons, á flugvellinum í Gambíu, þar sem þeir biðu þess að fá að komast inn í landið. Það gekk loksins, sex klukkustundum eftir lendingu, en leikurinn fór fram um kvöldið og Gabon tapaði.

Aubameyang birti myndir frá flugvellinum í Instastory.

Þjálfari Gabons, Patrice Neveu, sagði eftir leik að svona nokkuð yrði til þess að Arsenal myndi ekki leyfa Aubameyang að spila fyrir landsliðið. Leikmenn á hæsta stigi íþróttarinnar ættu ekki að þurfa að sofa á flugvallargólfi.

„Stundum gerist eitthvað óvænt“

Aðspurður hvort Neveu hefði rétt fyrir sér, um að Arsenal myndi meina Aubameyang að spila fyrir landsliðið sitt, svaraði Arteta:

„Nei. Auðvitað var það áfall að sjá heilan leikmannahóp við svona svefnaðstæður. En ég trúi því staðfastlega að menn séu alltaf að reyna sitt besta og að landslið Gabons hafi reynt að skipuleggja hlutina með sem bestum hætti. Stundum gerist eitthvað óvænt og þetta var ákveðin reynsla.“

„Ég sagði við Auba: „Nýttu þessa reynslu. Ég er viss um að þú hefur ekki sofið á gólfinu í mörg ár, svo nýttu þetta til að sjá það næst þegar þú leggst upp í rúm hvað það er þægilegt og gott og hve heppinn þú ert“,“ hefur enska blaðið Metro eftir Arteta.

„Það er ekki hægt að breyta þessu eða spóla til baka svo það þarf að horfa fram á við. Ég vona að þetta gerist ekki aftur og að leikmenn okkar fái þá hvíld sem þeir þurfa,“ sagði Arteta.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.