Erlent

Maður í Ber­lín í haldi grunaður um morð og mann­át

Atli Ísleifsson skrifar
Beinin fundist í almenningsgarði í hverfinu Buch í norðurhluta Berlínar.
Beinin fundist í almenningsgarði í hverfinu Buch í norðurhluta Berlínar. AP

Lögregla í Berlín í Þýskalandi hefur handtekið mann sem grunaður er um morð og mannát eftir að bein úr fórnarlambinu fundust í almenningsgarði í norðurhluta borgarinnar.

BBC greinir frá því að tæknimenn lögreglu segi beinin vera líkamsleifar 44 ára karlmanns sem hvarf sporlaust fyrir tveimur mánuðum.

Leitarhundar lögreglu leiddu lögreglu að íbúð hins grunaða, en hann er sagður vera 41 árs stærðfræðikennari. Það voru vegfarendur sem voru á ferð í garðinum, sem er að finna í hverfinu Buch, sem bentu lögreglu á beinin þann 8. nóvember síðastliðinn.

Talsmaður lögreglu segir í samtali við þýska blaðið BZ að ekkert kjöt hafi verið eftir á beinunum og að ýmislegt fleira bendi til þess að fórnarlambið, sem hefur gengið undir nafninu Stefan T í þýskum fjölmiðlum, hafi verið fórnarlamb mannætu. Hinn grunaði – kallaður Stefan R – hafði að sögn lögreglu sótt ákveðin spjallsvæði á netinu sem hafi styrkt grunsemdir lögreglu.

Fórnarlambið var rafmagnsfræðingur og hafði yfirgefið íbúð sína skömmu fyrir miðnætti að kvöldi 5. september. Samleigjendur hans létu svo lýsa eftir honum skömmu síðar.

Þýskir fjölmiðlar hafa líkt málinu við mál mannætunnar Armin Meiwes sen hlaut lífstíðardóm árið 2006. Hann hafði komist í kynni við fórnarlamb sitt á lokuðum spjallsvæðum fyrir fólk sem hefur áhuga á mannáti. Meiwes festi morðið á filmu og kom fram í ákæru að hinn 44 ára Meiwes hafði drepið 43 ára fórnarlamb sitt til að svala kynferðislegum löngunum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×