Erlent

Fyrsta andlát barns af völdum Covid í Noregi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Barnið lést á sjúkrahúsi í Bergen.
Barnið lést á sjúkrahúsi í Bergen. Vísir/getty

Barn sem smitað var af kórónuveirunni lést í dag á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu í Bergen í Noregi. Barnið er það fyrsta sem deyr af völdum veirunnar í landinu, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum.

Barnið var með alvarlegan undirliggjandi sjúkdóm, að sögn sjúkrahússins. Spítalinn hefur ekki veitt upplýsingar um aldur barnsins eða aðra hagi þess á grundvelli persónuverndarsjónarmiða. Líkt og áður segir er þetta í fyrsta sinn sem Covid-smitað barn deyr í Noregi - og raunar í fyrsta sinn sem einstaklingur yngri en 20 ára deyr vegna veirunnar, samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla sem vísa í opinberar tölur.

Bjørn Guldvog landlæknir í Noregi segir í samtali við norska dagblaðið VG í dag að fregnirnar af andláti barnsins séu afar sorglegar. Málið sé áminning um að Covid-sýking geti verið alvarleg í börnum sem glími við undirliggjandi sjúkdóma.

Hann segir andlát barnsins koma heim og saman við það sem þegar er vitað um sjúkdóminn. Málið undirstriki jafnframt mikilvægi sóttvarna sem miði að því að forða áhættuhópum frá sýkingu.

Heilbrigðisráðherrann Bent Høie og forsætisráðherrann Erna Solberg hafa sent aðstandendum barnsins samúðarkveðjur.

Yfir þrjátíu þúsund manns hafa greinst með kórónuveiruna í Noregi frá upphafi faraldursins og um þrjú hundruð látist af völdum Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×