Fótbolti

Nú vill Bayern München líka fá Íslandsbanann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominik Szoboszlai fagnar hér sigurmarki sínu á móti Íslandi.
Dominik Szoboszlai fagnar hér sigurmarki sínu á móti Íslandi. Getty/Laszlo Szirtesi

Íslenskir knattspyrnuáhugamenn gleyma örugglega ekki nafni Dominik Szoboszlai í bráð og nú er fjöldinn allur af stórliðum Evrópu á eftir þessum stórefnilega strák.

Einn frægasti leikmaður Bayern München og þýska landsliðsins í gegnum tíðina segir að Bayern München sé í hópi þeirra liða sem vilja fá Ungverjann Dominik Szoboszlai í sitt lið í næstu framtíð.

Ungverski knattspyrnumaðurinn Dominik Szoboszlai stóð undir nafni sem efnilegasti knattspyrnumaður þjóðar sinnar þegar hann skoraði sigurmarkið í umspilsleiknum mikilvæga á móti Íslandi í síðustu viku.

Dominik Szoboszlai skoraði markið eftir einstaklingsframtak og með frábæru skoti af löngu færi. Hann hefur farið á kostum með austurríska liðinu Red Bull Salzburg og þessi frammistaða á móti Íslandi var aðeins til að auka áhuga stórliða á honum.

Evrópumeistarar Bayern München eru enn eitt stórliðið til að sýna þessum tvítuga strák mikinn áhuga en áður hafði verið fjallað um það að hann væri á óskalista hjá liðum eins og Arsenal, Real Madrid og AC Milan.

Lothar Matthäus, sem á sínum tíma spilaði 300 leiki fyrir Bayern München og 150 landsleiki fyrir Þýskaaland, hefur talað vel um strákinn og telur að Bayern vilji fá hann.

Matthäus þekkir líka vel til í Ungverjalandi þar sem hann þjálfaði landsliðið meðal annars í tvö ár. Matthäus var spurður hver væri mikilvægasti leikmaður Ungverja sem verða í riðli með Þýskalandi á EM.

„Það er Dominik Szoboszlai, sem skoraði úrslitamarkið á móti Íslandi. Hann er demantur og er gæi eins og Kai Havertz. Í Ungverjalandi þá eru menn þegar farnir að líkja honum við Ferenc Puskas,“ sagði Lothar Matthäus við Abendzeitung München.

„Hann er virkilega frábær leikmaður sem stundum vill fara í gegnum miðjuna en dregur sig líka stundum út á kant. Hann gæti farið til RB Leipzig í janúar en ég er viss um að öll toppliðin í Evrópu hafa hann á sínum lista og þar á meðal Bayern,“ sagði Matthäus.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.