Fótbolti

Danir, Grikkir eða Bosníumenn gætu haldið EM-draumi íslensku strákanna á lífi í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Fannar Baldursson, miðjumaðurinn ungi hjá Bologna á Ítalíu, hefur komið inn í U21-landsliðið og leikið sína fyrstu þrjá leiki fyrir það í haust, auk þess að spila sinn fyrsta A-landsleik.
Andri Fannar Baldursson, miðjumaðurinn ungi hjá Bologna á Ítalíu, hefur komið inn í U21-landsliðið og leikið sína fyrstu þrjá leiki fyrir það í haust, auk þess að spila sinn fyrsta A-landsleik. Getty/Harry Murphy

Ef úrslitin falla með Íslandi í dag og á morgun komast strákarnir í U21-landsliðinu í fótbolta í lokakeppni EM á næsta ári. Aðeins „gullkynslóðinni“ sem myndað hefur kjarna í A-landsliðinu síðustu ár hefur afrekað það.

Hin nýja, efnilega kynslóð í U21-landsliðinu bjó sér til möguleika á að komast á EM með dramatískum 2-1 útisigri gegn Írlandi á sunnudaginn.

Þessir drengir léku fyrsta leik U21-landsliðs Íslands á stórmóti, á EM í Danmörku 2011. Margir þeirra fóru svo með Íslandi á EM og HM A-landsliða.Getty/Ian Walton

Ísland hefur lokið leik í undankeppninni þar sem að lokaleiknum, við Armeníu, var aflýst vegna stríðsástands í Armeníu og kórónuveirusmita í herbúðum armenska liðsins. Búist er við því að UEFA úrskurði Íslandi 3-0 sigur eða að Armenía verði dæmd úr keppni. 

Ísland endar því í 2. sæti síns riðils, nema að Svíþjóð vinni Ítalíu á útivelli á morgun. Það er algjör lykilleikur upp á von Íslands um að komast á EM en fleira þarf að koma til, í dag.

Íslendingar fagna sigurmarkinu sem Valdimar Þór Ingimundarson skoraði gegn Írum í fyrrakvöld. Marki sem gæti á endanum dugað liðinu til að komast á EM.Getty/Harry Murphy

Fimm lið með bestan árangur í 2. sæti, í undanriðlunum níu, komast á EM (hætt var við að nota umspil vegna kórónuveirufaraldursins).

Ísland þarf því að hafa náð betri árangri en fjögur lið sem enduðu í 2. sæti síns riðils, auk þess að treysta á að Svíþjóð vinni ekki Ítalíu á morgun.

Úrslitin í einum riðli af þremur þurfa að falla með Íslandi

Þegar er ljóst að Ísland endar með betri árangur en lið í 2. sæti úr þremur riðlum (riðlum 3, 5 og 6). Úrslitin í einum riðli til viðbótar þurfa því að falla með Íslandi í dag. Það þýðir að eitthvað eitt af þessu þarf að verða að veruleika:

Riðill 4: Skotland vinni ekki Grikkland á útivelli.

Riðill 8: Rúmenía vinni ekki Danmörku á heimavelli.

Riðill 9: Belgía vinni ekki Bosníu á útivelli.

Ef að ekkert af þessu rætist er EM-draumurinn úti hjá Íslandi, jafnvel þó að Svíþjóð vinni ekki Ítalíu.

Kolbeinn Birgir Finnsson rennir sér í boltann í leiknum við Íra.Getty/Harry Murphy

EM U21 landsliða fer fram í Ungverjalandi og Slóveníu. Lokakeppninni var breytt vegna faraldursins og fer hún fram í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn er riðlakeppni 24.-31. mars en svo hefst átta liða útsláttarkeppni 31. maí.

Þau lið sem hafa tryggt sér þátttökurétt eru Ungverjaland, Slóvenía, Rússland, Sviss, Holland, Danmörk, Spánn, England, Frakkland, Ítalía og Portúgal. Fimm sæti eru enn laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×