Innlent

Uppbyggingin á skíðasvæðunum á byrjunarreit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona er áætlað að Bláfjallasvæðið líti út árið 2024 eftir fyrirhugaða uppbyggingu.
Svona er áætlað að Bláfjallasvæðið líti út árið 2024 eftir fyrirhugaða uppbyggingu. grafík/stöð 2

Stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafnaði á fundi sínum í upphafi mánaðarins öllum tilboðum í framkvæmdir á skíðasvæðunum í Bláfjöllum.

Frá þessu er greint á vef Fjarðarfrétta þar sem Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæðanna í Bláfjöllum, segir að ástæða þess að öllum tilboðum hafi verið hafnað sé sú að lægsta tilboð hafi verið sautján prósent yfir kostnaðaráætlun. Alls bárust þrjú tilboð.

Lítil sem engin uppbygging hefur verið á skíðasvæðunum frá árinu 2004 þegar stólalyftan Kóngurinn var tekin í notkun í Bláfjöllum ef frá er talið töfrateppið sem sett var upp í Bláfjöllum 2012. Í kortunum eru þó talsverðar framkvæmdir, líkt og fjallað var um á Vísi fyrr á árinu.

Ráðist var í útboð á endurnýjun á stólalyftunum Drottningu, sem setja á upp 2023, og Gosanum, sem setja á upp á næsta ári, auk kaupa á snjóframleiðslubúnaði og borun á vinnsluholu fyrir snjóframleiðslu. Tilboð vegna verksins lágu fyrir í október en stjórn SSH samþykkti á fundi sínum 2. nóvember síðastliðinn að hafna tilboðunum þremur sem bárust.

Í samtali við Fjarðarfréttir segir Magnús að lækkun gengis íslensku krónunnar skýri stóran hluta þess að tilboðin sem bárust hafi verið yfir kostnaðaráætlun sem sé um 2,4 milljarðar auk kostnaðar við eftirlit og ófyrirséðan kostnað. 

Næstu skref séu að leita leiða til að ná kostnaði niður, meðal annars með því að ræða við tilboðsgjafa hvort hægt sé að lækka kostnaðinn eitthvað. Stefnt sé að reysa nýja lyftu í Suðurgili á næsta ári.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×