Fótbolti

Djurgård­ens bjargaði sér frá falli | Kristian­stads og Rosengård töpuðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir hjálpaði Djurgårdens að halda sæti sínu í deildinni.
Guðbjörg Gunnarsdóttir hjálpaði Djurgårdens að halda sæti sínu í deildinni. Aftonbladet

Íslendingalið Djurgårdens bjargaði sér frá falli í dag er lokaumferðin í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í Svíþjóð fór fram. Hin tvö Íslendingaliðin áttu ekki jafn góðan dag.

Íslendingalið Djurgårdens þurfti nauðsynlega á sigri að halda í kvöld en liðið hefur verið í bullandi fallbaráttu nær allt tímabilið. Djurgårdens fékk botnið deildarinnar, Uppsala, í heimsókn og vann 2-0 heimasigur.

Rachel Bloznalis kom heimaliðinu yfir strax á 4. mínútu og Linda Motlhalo svo gott sem gulltryggði sæti liðsins í deildinni með öðru marki liðsins þegar tólf mínútur lifðu leiks. Lokatölur 2-0 og sæti Djurgårdens öruggt fyrir næstu leiktíð.

Liðið endaði í 9. sæti af 12 liðum en Eskilstuna og Umeå voru þar fyrir neðan með 23 stig. Hélt Eskilstuna sæti sínu þar sem liðið var með betri markatölu en Umeå.

Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark Djurgårdens í dag og þá var Guðrún Arnardóttir í hjarta varnarinnar. Léku þær báðar allan leikinn.

Kristianstads tapaði á heimavelli fyrir Linköpings, lokatölur 1-2. Svava Rós Guðmundsdóttir spilaði síðustu átta mínútur leiksins í liði Kristianstads. Elísabet Gunnarsdóttir er sem fyrr þjálfari liðsins.

Með sigri hefði Kristianstads tryggt sér 2. sæti deildarinnar en þar endaði Rosengård með 47 stig á meðan Kristianstads endaði með 45 stig.

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í miðju varnar Rosengård er liðið tapaði 0-1 á heimavelli fyrir Växjö.


Tengdar fréttir

Elísa­bet komin með UEFA Pro þjálfara­gráðu

Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstads, er nú komin með UEFA Pro þjálfaragráðu. Lið hennar gæti náð öðru sæti en lokaumferðin fer fram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×