Fótbolti

Guðbjörg og Guðrún berjast fyrir lífi liðsins síns í deildinni í Íslendingaslag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir með börnin sín í fanginu þegar hún snéri aftur inn á völlinn eftir að hafa eignast tvíbura.
Guðbjörg Gunnarsdóttir með börnin sín í fanginu þegar hún snéri aftur inn á völlinn eftir að hafa eignast tvíbura. Instagram/@guggag

Guðbjörg Gunnarsdóttir, Guðrún Arnardóttir og félagar í Djurgården liðinu spila mikilvægan leik í lokaumferð sænsku kvennadeildarinnar í dag.

Djurgården mætir Uppsala í lokaumferðinni. Uppsala er fallið úr deildinni en Djurgården er í keppni við Umeå að fara ekki niður líka.

Þetta er Íslendingaslagur. Guðbjörg Gunnarsdóttir og Guðrún Arnardóttir spila með Djurgården en Anna Rakel Pétursdóttir er hjá IK Uppsala.

Umeå er einu stigi á eftir Djurgården fyrir lokaumferðina og Djurgården er líka með sjö marka forskot í markatölu. Djurgården tryggir sér sætið með sigri en má líka tapa leiknum ef Umeå nær ekki að vinna Eskilstuna á útivelli.

Piteå er tveimur stigum á undan Umeå og er þvi ekki alveg sloppið heldur taki bæði Djurgården og Umeå upp á því að vinna sína leiki.

Guðrún Arnardóttir hefur verið í byrjunarliði Djurgården í 19 af 21 leik liðsins á tímabilinu en Guðbjörg Gunnarsdóttir er nýbyrjuð að spila eftir að hún kom til baka úr barneignarfríi.

Kopparbergs/Göteborg FC hefur tryggt sér sænska meistaratitilinn og Íslendingaliðin FC Rosengård og Kristianstads DFF fara líka í Meistaradeildina.

Kristianstad á enn möguleika á því að ná öðru sætinu af Rosengård en Glódís Perla Viggósdóttir og félagar í Rosengård eru með tveggja stiga forskot fyrir lokaumferðin.

Rosengård fær Växjö í heimsókn á sama tíma og Kristianstad tekur á móti Linköping á heimavelli.

Leikur Djurgården og Uppsala fer fram á heimavelli Djurgården liðsins, hefst klukkan 14.00 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×