Erlent

Hægri­öfga­hópar stefna á Was­hington til að sýna sam­stöðu með Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Liðsmaður hægriöfgasamtakanna „Stoltu strákanna“ með derhúfu til stuðnings Trump forseta rökræðir við mótmælanda í Fíladelfíu eftir kosningarnar í síðustu viku. Talið er að liðsmenn hreyfingarinnar ætli að fjölmenn til höfuðborgarinnar til að styðja forsetann.
Liðsmaður hægriöfgasamtakanna „Stoltu strákanna“ með derhúfu til stuðnings Trump forseta rökræðir við mótmælanda í Fíladelfíu eftir kosningarnar í síðustu viku. Talið er að liðsmenn hreyfingarinnar ætli að fjölmenn til höfuðborgarinnar til að styðja forsetann. AP/Rebecca Blackwell

Samstöðufundir hægriöfgahópa og annarra stuðningsmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta með ásökunum hans um víðtæk kosningasvik eru áformaðir í Washington-borg á laugardag. Forsetinn neitaði enn að játa sig sigraðan þegar hann kom fram opinberlega í fyrsta sinn frá ósigrinum í forsetakosningunum í dag.

Eftir að fjölmiðlar lýstu yfir sigurvegurum í síðustu ríkjunum sem eftir stóðu í forsetakosningunum sem fóru fram í síðustu viku er Joe Biden, frambjóðandi demókrata, með 306 kjörmenn gegn 232 forsetans. Trump hefur neitað að viðurkenna ósigur og höfðað fjölda mála í nokkrum ríkjum til að koma í veg fyrir að Biden verði staðfestur sigurvegari formlega.

Forsetinn hafði ekki komið fram opinberlega eftir að Biden var lýstur sigurvegari á laugardag fyrr en á viðburði um bóluefni gegn kórónuveirunni í Hvíta húsinu í dag. Þar hélt Trump sig enn við að ekki yrði ljóst hver yrði næsti.

Lýsti hann andstöðu sinni við strangar sóttvarnaaðgerðir gegn faraldrinum og endurtók fyrri rangindi sín um að mikinn fjölda smitaðra í Bandaríkjunum megi rekja til þess hversu víðtæk skimun fari fram í landinu.

„Þessi ríkisstjórn mun ekki standa fyrir lokunum. Vonandi, hvað sem gerist í framtíðinni, hver veit hvaða ríkisstjórn það verður, ég býst við því að tíminn greiði úr því, en ég get sagt ykkur að þessi ríkisstjórn mun ekki standa fyrir lokunum,“ sagði Trump.

Fyrr í dag lofaði hann stuðningsmenn sína fyrir að standa með honum í tilraunum hans til þess að fá kosningaúrslitunum hnekkt á Twitter.

„Það vermir hjartaræturnar að sjá allan þennan rosalega stuðning þarna úti, sérstaklega sjálfsprottnu kröfufundina sem spretta upp um allt land, þar á meðal stór á laugardaginn í D.C. [Washington-borg]. Ég kem jafnvel við og heilsa,“ tísti forsetinn.

Óttast átök á milli ólíkra fylkinga

Reuters-fréttastofan segir að á meðal skipuleggjenda baráttufundanna í Washington á laugardag séu Alex Jones, hægriföfgasamsæriskenningasmiður, og Nicholas Fuentes sem sjálfur lýsir sér sem bandarískum þjóðernissinna. Liðsmenn hægriöfgasamtakanna „Stoltu strákanna“ og „Varðmanna eiðsins“ eru sagðir ætla að mæta á útifundina.

Enrique Tarrio, leiðtogi Stoltu strákanna, segir að hann búist við um 250 félögum sínum til höfuðborgarinnar. Hann búist ekki við ofbeldi og að liðsmenn samtakanna virði reglu um vopnaburð sem gilda þar.

Vinstrisinnaðir hópar eru sagðir ætla að efna til gagnmótmæla. Sérfræðingar í öryggismálum óttast að til átaka geti komið í Washington er ólíkum fylkingum lýstur saman.

Fleiri fundir til stuðnings Trump forseta er áformaðir í fleiri stórborgum víðar um landið.

Til götuóeirða kom í borginni Charlottesville í Virginíu árið 2017 þegar skarst í brýnu á milli hvítra þjóðernissinna, nýnasista og annarra hægriöfgamanna annars vegar og gagnmótmælenda hins vegar. Kona á fertugsaldri lést þegar nýnasisti ók bíl sínum inn í hóp gagnmótmælenda.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.