Enski boltinn

Segir að Liverpool hefði rekið Klopp ef hann væri svartur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp hefur náð frábærum árangri með Liverpool síðan hann tók við liðinu í október 2015.
Jürgen Klopp hefur náð frábærum árangri með Liverpool síðan hann tók við liðinu í október 2015. GETTY/Clive Brunskill

John Barnes segir að Jürgen Klopp hefði verið rekinn sem knattspyrnustjóri Liverpool á fyrstu tveimur tímabilum sínum með liðið ef hann væri svartur. Hann segir augljóst að svartir þjálfarar eigi erfitt uppdráttar á Englandi.

Klopp fagnaði fimm ára starfsafmæli hjá Liverpool í síðasta mánuði. Á fyrstu tveimur tímabilum sínum við stjórnvölinn hjá Bítlaborgarliðinu endaði það í 8. og 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Fyrsta tímabilið komst Liverpool reyndar bæði í úrslit deildabikarsins og Evrópudeildarinnar. Þrátt fyrir það segir Barnes að Klopp hefði misst starfið sitt ef hann væri dökkur á hörund.

„Ég tek Klopp sem dæmi. Hversu farsæll var hann fyrstu tvö árin? En við [Liverpool] trúðum því að hann væri rétti maðurinn,“ sagði Barnes

„Undir öðrum kringumstæðum hefði hann misst starfið sitt. Ef hann væri svartur hefði hann verið rekinn á fyrstu tveimur árunum.“

Barnes segir einnig að enskir þjálfarar eigi undir högg að sækja og segir að ef Klopp væri enskur hefði hann fengið sparkið hjá Liverpool.

Barnes lék með Liverpool á árunum 1987-97 og varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með liðinu og tvisvar sinnum bikarmeistari. Hann lék 79 landsleiki fyrir England og skoraði ellefu mörk.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.