Enski boltinn

Arsenal og Tottenham gætu barist um frían Evrópumeistara

Sindri Sverrisson skrifar
Jerome Boateng í baráttu við Erling Braut Haaland í stórleik Bayern og Dortmund um síðustu helgi, sem Bayern vann 3-2.
Jerome Boateng í baráttu við Erling Braut Haaland í stórleik Bayern og Dortmund um síðustu helgi, sem Bayern vann 3-2. Getty/Friedemann Vogel

Þýski miðvörðurinn Jerome Boateng gæti verið á leið aftur í ensku úrvalsdeildina eftir að Evrópumeistarar Bayern München ákváðu að gera ekki nýjan samning við hann.

Það er þýski miðillinn Sport Bild sem fullyrðir að Boateng, sem er 32 ára, fái ekki nýjan samning hjá Bayern. Núgildandi samningur hans rennur út næsta sumar.

Samkvæmt Sport Bild var Arsenal með mikinn áhuga á Boateng síðasta sumar og hann er enn í sigti félagsins. Hið sama má segja um erkifjendur Arsenal í Tottenham en Jose Mourinho er sagður fylgjast spenntur með stöðu Boatengs.

Boateng þótti standa sig ágætlega á síðustu leiktíð, ekki síst í sumar og hann var í byrjunarliði Bayern í átta leikjum á leið liðsins að Evrópumeistaratitlinum, meðal annars í úrslitaleiknum gegn PSG þar sem hann fór þó meiddur af velli í fyrri hálfleik.

Boateng lék í ensku úrvalsdeildinni með Manchester City tímabilið 2010-2011 en fór þaðan til Bayern og hefur verið þar síðan. Áður lék hann með Herthu Berlin og Hamburg. 

Boateng á að baki 76 landsleiki fyrir Þýskaland og varð heimsmeistari með liðinu árið 2014, en hefur ekki átt upp á ballborðið hjá Joachim Löw landsliðsþjálfara síðustu misseri. Löw tilkynnti í mars í fyrra að hann hygðist ekki velja Boateng, Mats Hummels eða Thomas Müller í sitt lið framar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×