Fótbolti

Tímamótaleikur hjá Akureyringunum í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason verða væntanlega saman á miðju íslenska liðsins gegn Ungverjum í kvöld. Með sigri tryggir Ísland sér sæti á þriðja stórmótinu í röð.
Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason verða væntanlega saman á miðju íslenska liðsins gegn Ungverjum í kvöld. Með sigri tryggir Ísland sér sæti á þriðja stórmótinu í röð. getty/Jeroen Meuwsen

Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason leika sinn 90. landsleik þegar Ísland sækir Ungverjaland heim í umspili um sæti á EM í kvöld.

Þrír leikmenn hafa leikið 90 leiki eða fleiri fyrir íslenska landsliðið og tveir þeirra eru í íslenska hópnum í dag. Rúnar Kristinsson er leikjahæstur með 104 landsleiki en síðan koma Ragnar Sigurðsson og Birkir Már Sævarsson með 96 og 93 landsleiki. Aron Einar og Birkir bætast í þennan hóp í kvöld og fara fram úr Hermanni Hreiðarssyni sem lék 89 landsleiki á sínum tíma.

Alfreð Finnbogason, sem verður að öllum líkindum í byrjunarliðinu í kvöld, leikur einnig tímamótaleik fyrir landsliðið, sinn sextugasta. Ef Kolbeinn Sigþórsson kemur við sögu leikur hann sömuleiðis sinn sextugasta landsleik.

Aron Einar lék sinn fyrsta landsleik í 2-0 tapi fyrir Hvíta-Rússlandi á Möltu 2. febrúar 2008, þá aðeins átján ára. Hann hefur verið landsliðsfyrirliði frá 2012 og leikurinn í kvöld verður hans 62. sem fyrirliði landsliðsins.

Birkir þreytti frumraun sína með landsliðinu í 4-0 sigri á Andorra 29. maí 2010. Hann var í byrjunarliði Íslands og lék allan leikinn.

Auk þess að vera í 4.-6. sæti yfir leikjahæstu leikmenn íslenska landsliðsins frá upphafi er Birkir í 8.-9. sætinu á listanum yfir þá markahæstu landsliðsmennina ásamt Þórði Guðjónssyni með þrettán mörk.

Gríðarleg reynsla er í íslenska hópnum og miklu meiri en í þeim ungverska. Í íslenska hópnum eru tólf leikmenn sem hafa leikið yfir 50 landsleiki. Ádám Szalai er eini Ungverjinn sem á 50 landsleiki eða fleiri. Hann er leikjahæstur í ungverska hópnum, þó ekki með nema 66 landsleiki. Ádám Nagy er næstleikjahæstur með 41 landsleik.

Aðeins einn leikmaður í íslenska hópnum hefur leikið færri en tíu landsleiki; Rúnar Alex Rúnarsson. Í ungverska hópnum eru aftur á móti ellefu leikmenn sem hafa ekki náð tíu landsleikjum.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Vill að Jón Daði byrji í kvöld

Nánast allt byrjunarliðið sem mætti Króatíu í úrslitaleik ytra um sæti á HM fyrir sjö árum er til taks í Búdapest í kvöld í úrslitaleik Íslands við Ungverjaland um sæti á EM.

Arnór Ingvi reyndist vera með veiruna

Það reyndist góð ákvörðun að Arnór Ingvi Traustason gæfi eftir sæti sitt í íslenska landsliðshópnum sem mætir Ungverjalandi í kvöld. Hann hefur nú greinst með kórónuveirusmit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×