Enski boltinn

Liver­pool og Manchester United missa bak­verði í meiðsli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir verða frá vegna meiðsla þangað til um miðjan desembermánuð.
Þessir tveir verða frá vegna meiðsla þangað til um miðjan desembermánuð. EPA-EFE/Peter Powell/Owen Humphreys

Englandsmeistarar Liverpool og Manchester United verða bæði án lykilmanna næstu vikurnar eftir að hægri bakvörður Liverpool og vinstri bakvörður Man Utd höltruðu af velli í leikjum helgarinnar.

Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Liverpool, fór meiddur af velli gegn Manchester City á sunnudaginn en leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Eftir að hafa farið í skoðun er ljóst að Alexander-Arnold mun ekki spila með Liverpool fyrr en í næsta desembermánuði vegna kálfameiðsla sem hann varð fyrir í leiknum.

Hann dró sig úr landsliðshópi Englendinga sem mætir til að mynda Íslendingum nú á næstu dögum. Þá mun hann missa af leikjum Liverpool gegn toppliði Leicester City og Brighton & Hove Albion í úrvalsdeildinni ásamt því að missa af leikjum gegn Atalanta og Ajax í Meistaradeild Evrópu.

Trent er ekki eini enski bakvörðurinn sem fór meiddur af velli um helgina. Luke Shaw, vinstri bakvörður Manchester United, þurfti að yfirgefa völlinn er Man Utd lagði Everton 3-1 á laugardeginn vegna meiðsla aftan í læri.

Shaw hefur verið fastamaður í vinstri bakverði á þessari leiktíð en missti af þremur mánuðum á síðustu leiktíð vegna meiðsla aftan í læri. Missir hann nú af leikjum gegn West Bromwich Albion, Southampton og West Ham United í úrvalsdeildinni ásamt leikjum gegn Istanbul Basaksehir, Paris Saint-Germain og RB Leipzig í Meistaradeildinni

Töluvert álag hefur verið á báðum liðum það sem af er leiktíð og til að mynda lék Man Utd í Tyrklandi á miðvikudeginum og átti svo hádegisleik á laugardegi. Eitthvað sem Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, nefndi til að mynda og sagði ekki vera boðlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×