Erlent

Nýjar niður­stöður bólu­efnis­rann­sóknar sagðar marka þátta­skil

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pfizer-bóluefnið er eitt rúmlega tíu efna sem eru á lokastigi prófana.
Pfizer-bóluefnið er eitt rúmlega tíu efna sem eru á lokastigi prófana. Jakub Porzycki/NurPhoto/Getty

Bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer, sem unnið hefur að þróun bóluefnis við kórónuveirunni ásamt þýska lyfjafyrirtækinu BioNTech, segir bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að bóluefnið veiti vörn gegn veirunni í 90 prósent tilvika. Þetta tilkynnti Pfizer í dag. Erlendir fjölmiðlar segja niðurstöðurnar fram úr vonum sérfræðinga.

Bóluefni Pfizer og BioNTech hefur verið prófað á um 43.500 manns í sex löndum, að því er fram kemur í frétt BBC, og er eitt rétt rúmlega tíu bóluefna sem eru á þriðja og lokastigi prófana. Engar niðurstöður tilrauna á umræddum bóluefnum hafa verið birtar fyrr en nú. Þess ber þó að geta að um bráðabirgðaniðurstöður er að ræða.

Bóluefnið er gefið í tveimur skömmtum með þriggja vikna millibili. Samkvæmt umræddum niðurstöðum veitti efnið vörn gegn veirunni í 90 prósent tilvika, sjö dögum eftir seinni skammtinn.

Forsvarsmenn Pfizer og BioNTech hafa lýst niðurstöðunum sem „þáttaskilum“ í baráttunni við kórónuveiruna.

„Við erum talsvert nær því að veita fólki víðsvegar um heiminn mikilvægt framfaraskref í baráttunni við þennan alheimsfaraldur,“ er haft eftir Dr. Albert Bourla, stjórnarformanni Pfizer, í frétt BBC.

Framlínufólk gæti fengið bólusetningu í lok árs

Fyrirtækin gera ráð fyrir að sækja um svokallað neyðarleyfi fyrir bóluefninu hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) í lok þessa mánaðar. FDA hefur gefið út að slíkt leyfi verði ekki gefið nema bóluefni hafi verið prófað á a.m.k. 30 þúsund manns og að þar á meðal skuli vera fólk úr áhættuhópum. Hljóti bóluefnið brautargengi gæti framlínufólk byrjað að fá skammta áður en árið er úti, að því er segir í frétt Guardian.

Heilbrigðisyfirvöld á heimsvísu hafa beðið fólk að stilla væntingum vegna bóluefnis í hóf. Flestir hafa jafnframt verið á því hingað til að bóluefni komi ekki á markað fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur til að mynda beðið fólk „aðeins að halda andanum“ varðandi bóluefni. Hann benti jafnframt á það í september að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi sagt að bóluefni sé hvorki „svarið né lausnin“ við faraldrinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×