Fótbolti

Arnór kominn í sóttkví eftir að fyrirliðinn hans fékk kórónuveiruna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason og Anders Christiansen, fyrirliði Malmo FF.
Arnór Ingvi Traustason og Anders Christiansen, fyrirliði Malmo FF. Getty/Lars Dareberg

Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason er kominn í sóttkví innan við sólarhring áður en hann átti að koma til móts við íslenska landsliðið.

Malmö FF liðið tryggði sér í gær sænska meistaratitilinn eftir 4-0 sigur á Sirius en titilinn er í húsi þrátt fyrir að þrjár umferðir séu óspilaðar.

Malmö FF segir frá því á heimasíðu sinni að fyrirliði liðsins, Anders Christiansen, sé kominn með kórónuveiruna og öllum hátíðarhöldum liðsins hafi af þeim sökum verið frestað.

Anders Christiansen spilaði allan leikinn í gær og fagnaði líka sigri með félögum sínum í leikslok. Hann fór einnig í fullt af viðtölum eftir leikinn.

Malmö FF greinir frá því á heimasíðu að Christiansen hafi ekki fundið fyrir neinum einkennum fyrir leik en eftir viðtölin þá fór Anders Christiansen aftur á móti að finna fyrir slappleika. Hann fór ekki með félögum sínum í liðsrútunni heldur hélt kyrru fyrir með læknum liðsins.

„Anders fann ekki fyrir neinu fyrir leikinn. Hann lagði sig fram inn á vellinum, fagnaði eftir leikinn og kláraði sín viðtöl. Þegar adrenalínið hætti að flæða þá var hann orðinn slappur og kominn með magaverk. Þegar aðrir leikmenn fóru í burtu með liðsrútunni, þá var Anders eftir með liðslækni okkar. Hann tók skyndipróf og það var jákvætt,“ sagði Daniel Andersson, íþróttastjóri Malmö FF í samtali við heimasíðu félagsins.

Malmö FF frestaði strax hátíðarkvöldverði sem átti að vera í tilefni meistaratitilsins.

Þessi greining eins leikmanns Malmö FF sem hafði stuttu áður fagnað með félögum sínum þýðir líka að öllum viðburðum og æfingum Malmö FF er frestað í viku. Leikmenn liðsins þurfa líka að fara í sóttkví samkvæmt reglum sænska heilbrigðisembættisins og Sóttvarnarstofnuninni á Skjáni.

Arnór Ingvi Traustason er einn af leikmönnum Malmö sem er kominn í sóttkví en hann átti að hitta landsliðshópinn í Augsburg í Þýskalandi í dag. Ísland mætir Ungverjum í hreinum úrslitaleik um EM-sæti í Búdapest á fimmtudaginn.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×