Fótbolti

Leikur Englands og Íslands færður af Wembley?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ísland - Rúmenía EM umspil knattspyrnu Laugardalsvöllur ksí
Ísland - Rúmenía EM umspil knattspyrnu Laugardalsvöllur ksí

Fyrirhugaður leikur Englands og Íslands í Þjóðadeild Evrópu er sagður í uppnámi vegna ferðabanns sem bresk yfirvöld hafa sett vegna kórónuveirufaraldursins.

Frá þessu er greint á vef BBC í dag.

Í kjölfar stökkbreytingar á kórónuveirunni sem greindist í minkum í Danmörku hefur verið sett ferðabann á alla ferðamenn frá Danmörku til Bretlands.

Íslenska landsliðið mætir Dönum í Kaupmannahöfn þann 15.nóvember næstkomandi og á svo að ferðast þaðan til Lundúna og leika gegn Englendingum á Wembley þann 18.nóvember. 

Í reglugerð breskra yfirvalda segir að engar undanþágur verði veittar frá ferðabanninu en í frétt BBC segir að enska knattspyrnusambandið bíði frekari útskýringa frá stjórnvöldum. Ekki kemur til greina að fresta leiknum en um er að ræða lokaleik Íslands í Þjóðadeildinni.

Talið er að þessar fréttir muni einnig hafa áhrif á danska landsliðsmenn sem leika í ensku úrvalsdeildinni og er talið næsta víst að ensk úrvalsdeildarfélög muni ekki hleypa sínum dönsku landsliðsmönnum til Danmerkur þar sem þeir þurfi að fara í 14 daga einangrun við komuna til baka til Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×